Samkomulag um kaup og rekstur sjúkrabifreiða

0
1155
Svandís Svavarsdóttir og Kristín S. Hjálmtýsdóttir eftir undirritun og staðfestingu samkomulagsins

Sjúkratryggingar Íslands og Rauði krossinn á Íslandi hafa náð samkomulagi um framlengingu á samningi um kaup og rekstur sjúkrabifreiða. Heilbrigðisráðherra staðfesti samkomulagið við undirritun. Samkvæmt því mun Rauði krossinn áfram annast rekstur sjúkrabíla, viðhald og innkaup gegn árlegu fjárframlagi af hálfu ríkisins. Fyrirliggjandi samningur rann út í lok árs 2015 og hefur endurnýjun sjúkrabílaflotans tafist frá þeim tíma.
Í kjölfar samkomulagsins sem gildir til loka árs 2022 verður tafarlaust ráðist í kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum samkvæmt útboði sem nú stendur yfir og vænta má þess að fyrstu bílarnir verði teknir í notkun á árinu 2020. Reiknað er með að stærsti hluti bílaflotans verði endurnýjaður á samningstímanum.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra: „Það er mikið fagnaðarefni að löngum viðræðum okkar við Rauða krossinn á Íslandi hafi lokið með þessum farsæla hætti.
Rauði krossinn hefur sinnt þessu mikilvæga verkefni af fagmennsku og alúð allt frá því að fyrsti sjúkrabíllinn kom til landsins. Það er ánægjulegt að samstarf okkar við félagið haldi áfram. Af hálfu ríkisins hefur verið lögð áhersla á tryggja snurðulausan rekstur og ábyrga meðferð fjármuna til lengri tíma. Öllum ágreiningi hefur verið ýtt til hliðar og hagsmunir almennings og heilbrigðiskerfisins settir í forgang.“
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands: „Það er ánægjulegt að hafa náð langþráðu samkomulagi um rekstur sjúkrabifreiða. Samstarf okkar og Rauða krossins hefur ávallt verið gott og við hlökkum til að ráðast nú í það verkefni að endurnýja bílaflotann og tryggja sjúkraflutningafólki og skjólstæðingum þess eins öruggar aðstæður og kostur er.“
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi: „Með þessu samkomulagi hefur tekist að jafna ágreining og framlengja það sameiginlega verkefni okkar og stjórnvalda að annast sjúkraflutninga í landinu. Rauði krossinn á Íslandi hefur nú annast þessa þjónustu við góðan orðstír í hartnær hundrað ár. Sjúkraflutningaþjónustan er samofin sögu félagsins allt frá stofnun þess og við lítum í senn hreykin um öxl og full tilhlökkunar fram á veginn.“