Annarlok Fræðslunetsins

0
1135
Útskriftarhópurinn vorið 2019

Í vor lauk þremur íslenskunámskeiðum ásamt einu námskeiði í símenntun fatlaðs fólks sem Fræðslunetið stóð að. Tveir hópar á Höfn, samtals 28 nemendur, luku íslensku 2 og 11 nemendur luku íslensku 4 en Hlíf Gylfadóttir sá um kennsluna. Í Öræfum luku 12 nemendur íslensku 2 en Margrét Gauja Magnúsdóttir og Magnhildur Björk Gísladóttir skiptu kennslunni þar á milli sín. Stefnt er á að bjóða upp á íslensku 1 og 3 á Höfn í haust og íslensku 3 í Öræfum.

Partur af íslenskuhópnum úr Öræfunum ásamt kennurum
Partur af íslenskuhópnum úr Öræfunum ásamt kennurum

Boðið var upp á sex vikna námskeið í stóla jóga í símenntun fatlaðs fólks en sex tóku þátt og luku því námskeiði undir leiðsögn Ástu Sigfúsdóttur.
Þrír luku raunfærnimati í matartækni og fengu niðurstöður úr matinu afhentar í útskrift Fræðslunetsins 31. maí síðastliðinn. Raunfærnimat snýst um að veita fólki tækifæri til að fá hæfni sína metna til framhaldsskólaeininga og er viðurkenning á því að nám geti farið fram annars staðar en í formlega skólakerfinu en þeir sem hafa unnið árum saman í sama eða svipuðum störfum hafa orðið sér úti um mikla þekkingu.
Einn nemandi útskrifaðist úr Skrifstofuskólanum, sem er nám t.d. ætlað þeim sem vinna við almenn skrifstofustörf eða hafa hug á því að skipta um starfsvettvang eða vera meira sjálfbjarga í eigin atvinnurekstri. Skrifstofuskólinn er 240 kennslustunda nám og eru helstu námsþættir sjálfsstyrking, námstækni, tölvu- og upplýsingatækni, verslunarreikningur, bókhald og tölvubókhald.