Mikilvægt er að huga að grundvallarskilgreiningu á réttindum almennings að því er varðar möguleika til að njóta heimilis með sinni fjölskyldu og þess skjóls sem slíkt veitir. „Réttur til húsnæðisöryggis“ eru mannréttindi og stjórnvöld hafa skrifað undir alþjóðlega samninga hvað þetta varðar. Samt er verulegur skortur á húsnæði sem almenningur ræður við enda er alltof stór hluti tekna sem fer almennt í húsnæði eða næstum 2/3 hlutar tekna.
Hlutverk ríkisins og opinberra aðila er að beita íhlutandi frumkvæði og eftirliti til að auðvelda fjármögnun og lágmarka húsnæðiskostnað almennings með samhæfðum aðgerðum. Húsaleigubætur eru dæmi um íhlutun til að létta fólki byrðarnar en það eru margir sem ekki sækja um slíkar húsaleigubætur t.d. vegna þess að það hefur fengið inni í ósamþykktu húsnæði. Stór hluti íbúðamarkaðarins er í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði en eftirlit opinberra aðila hefur ekki verið nægilegt og því er ekki hægt að meta umfangið en það er næsta vísta að enn fleiri væru á götunni og húsnæðislausir ef þeir byggju ekki í þannig húsnæði nú eða enn í foreldrahúsum. Ungt fólk getur ekki flutt að heiman fyrr en á fertugsaldri og sumir foreldrar hafa þurft að flytja inn til barna sinna.
Sveitarfélögum ber skylda til samkvæmt lögum að sjá fólki, sem hefur lágar tekjur eða lífeyri sem dugir ekki fyrir almennu húsnæði, fyrir félagslegu húsnæði. Sveitarfélögin brjóta þessi lög daglega, útvega ekki því fólki sem þarf slíkt húsnæði, losnar ekki nema að fólk andist og losar þannig húsnæði. Hvað þarf til að sveitarfélög standi við lögbundnar skyldur sínar? Fólk ætti að geta lögsótt sveitarfélögin fyrir að standa ekki sína plikt.
Stóraukið framboð á leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum í húsnæðissamvinnufélögum gæti orðið langskilvirkasta leiðin til að veita „markaðsaðhald/samkeppni“ og draga með því úr sveiflum á húsnæðismarkaði og ósjálfbærri „hagnaðarkröfu“ fjárfesta og spákaupmanna á íbúðamarkaðinum.
Dögun vill stíga markmiðsbundin skref til að breyta húsnæðismarkaðinum; – yfir í að húsnæðisfélög (e. not for profit) og vill að almennur leigumarkaður nái 25-30% hlutdeild innan 10-15 ára. Dögun hefur nú þegar sýnt frumkvæði að því ásamt fleirum að stofna óhagnaðardrifið húsnæðissamvinnufélag á Suðurnesjum, Íbúðafélag Suðurnesja hsf., sem stefnir að því að byggja 60 – 80 íbúðir á næstu mánuðum og munu bjóða 20 – 30% lægri leigu en gerist á almennum markaði enda non profit félag.
Dögun leggst gegn hugmyndum um að fjármálafyrirtækin (lífeyrissjóðir, bankar og Íbúðalánasjóður) stofni fasteignafélög til að koma tímabundið inn á leigumarkaðinn sem arðsemisfjárfestar, þar sem slíkt vinnur gegn markmiðum um að styrkja og efla leigumarkaðinn til framtíðar og gæti beinlínis skapað nýja tegund af fasteignabólu með tilheyrandi verðsveiflum, hruni og hörmungum fyrir almenning. Í mörgum byggðalögum á landsbyggðinni er enn minna af húsnæði á lausu og það stendur atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Sum fyrirtæki hafa hugsað sér að byggja fyrir sitt starfsfólk til þess að það geti starfað hjá fyrirtækinu en þurfi ekki að flytja í burtu úr byggðalögunum. Skil þessi fyrirtæki vel en tel þetta mjög slæma þróun, verður til nútíma vistarbönd þar sem launþegar verða bundnir vinnuveitendum sínum í gegnum húsnæðið, heimilið.
Húsnæðisaðstæður ungs fólks, barnafjölskyldna og þeirra sem áttu að eiga „áhyggjulaust“ ævikvöld eru algerlega ólíðandi eins og staða mála er í dag. Við skulum hætta að tala og fara að gera. Ekki setja málin í nefnd rétt eina ferðina. Við eigum betra skilið! xT fyrir Dögun.
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir 1. sæti í Suðurkjördæmi