15 ára sindrakona á landsliðsæfingum í fótbolta

0
469

Kristín Magdalena Barboza, 15 ára Sindrakona, var á dögunum valin í hóp sem tekur þátt í úrtaksæfingum fyrir U15 núna í lok mars. Hún er ein af 30 stelpum sem valdar voru af Magnúsi Erni Helgasyni, landsliðsþjálfara U15 kvenna. Hún spilaði þrjá leiki með U15 í Póllandi í október og hefur verið að mæta á æfingar með þeim reglulega síðan þá og hefur það gengið mjög vel. Kristín er ótrúlega efnileg knattspyrnukona sem hefur spilað 16 leiki með meistaraflokki kvenna og skorað þrjú mörk með þeim, tvö af þeim núna í Lengjubikarnum, eitt mark á móti KH og annað á móti ÍH. Þjálfari meistaraflokks kvenna, Veselin K. Chilingirov, henni sem metnaðarfullri og harðduglegri stelpu sem er alltaf tilbúin að læra og bæta sig í öllu. Hún hefur komist upp í meistaraflokk kvenna með mikilli þolinmæði og vinnu og er orðin mjög mikilvægur hluti af liðinu og hún sýnir það betur og betur með hverjum leiknum. Kristín er frábær liðsfélagi sem er alltaf með gott og jákvætt hugarfar sem er mjög mikilvægt fyrir liðsheildina. Einnig er hún frábær fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina og má allt Sindrafólk vera stolt af því að eiga svona öflugt ungt fólk í sínu liði. Knattspyrnudeild Sindra óskar Kristínu og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með valið og góðs gengis á æfingum.