X-B fyrir Framsókn

0
448

Á kosningavori eru tímamót þar sem kjörtímabilið sem er að líða er gert upp og sett markmið fyrir kjörtímabilið framundan. Með því að horfa yfir farinn veg er gott að meta hvað hefur verið vel gert, hvað er í farvegi og þarfnast áframhaldandi vinnu og svo hvað hefði mátt betur fara og læra af því.
Á lista Framsóknar og stuðningsmanna er góð blanda af reynslu og nýliðum sem eru að stíga sín fyrstu skref í bæjarmálunum. Blanda sem við teljum af hinu góða þar sem reynsla núverandi bæjarfulltrúa, fólks sem hefur komið að nefndarstarfi og fersk sýn nýliða kemur saman. Í þessu sem öðru þarf að vera endurnýjun en sá tími sem það tekur að koma sér inn í mál er dýrmætur og þá er gott að hafa reynslu og þekkingu innanborðs.
Fjölbreytt atvinnulíf er ein af forsendum vaxtar samfélagsins. Í sveitarfélaginu standa ferðaþjónusta og sjávarútvegur sterkum fótum en nauðsynlegt er að halda áfram að skapa aðstæður og styrkja innviði til að sú þróun haldi áfram. Landbúnaður hefur breyst á síðustu árum en standa þarf vörð um hann, svo og þau áform sem þar eru t.d. með uppbyggingu þjónustusláturhúss. Við höfum, og munum áfram, leggja áherslu á framkvæmdir við hringveg um Hornafjörð og hjúkrunarheimili. Bæði þessi stóru verkefni eru nú í burðarliðnum og munum við fylgja eftir framkvæmd þeirra.
Við viljum leggja áherslu á að styrkja uppbyggingu þekkingasamfélagsins og stuðla að fjölbreyttum störfum í sveitarfélaginu. Auk þess að leggja áherslu á nýsköpun og skapandi greinar. Það gerum við með því að efla þær stofnanir sem hér eru fyrir, berjast fyrir flutningi sérfræðistarfa í sveitarfélagið og bjóða uppá aðstöðu fyrir störf án staðsetningar bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Það er víða verk að vinna. Aðalskipulag sveitarfélagsins er lykilverkfæri í stefnumótun samfélagsins, framundan er endurskoðun þess sem unnin verður í góðu samtali við íbúa og aðra hagaðila í samfélaginu. Umhverfismál eru okkur öllum mikilvæg og leggjum við áherslu á að þau séu höfð til hliðsjónar við alla ákvarðanatöku hjá sveitarfélaginu. Við viljum fara í markvissa uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og skipuleggja nýtt svæði fyrir byggingalóðir, samfélagið er í vexti og þannig viljum við hafa það áfram. Við teljum mikilvægt að búa sem best í haginn fyrir ungt fólk, fjölskyldur og fyrirtæki á staðnum til að gera samfélagið okkar enn sterkara. Við viljum halda áfram því góða starfi sem byggst hefur upp á síðasta kjörtímabili í málefnum íbúa af erlendum uppruna.
Kosningarétturinn er einn af okkar mikilvægustu réttindum í lýðræðisríki. Við í Framsókn hvetjum þig til að mæta á kjörstað og taka upplýsta ákvörðun um hverjum þú treystir til að leiða næstu fjögur árin. Við munum ráða bæjarstjóra á grundvelli reynslu, þekkingar og vel skilgreindrar hæfni.
Kæri íbúi, Framsókn og stuðningsmenn óska eftir stuðningi þínum í kosningunum n.k. laugardag 14. maí – XB fyrir Framsókn.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, 1. Sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.