Vorverkin og garðaúrgangur

0
571

Nú þegar íbúar eru farnir að huga að vorverkum í görðum sínum er ekki úr vegi að fjalla aðeins um garðaúrgang. Á síðastliðnu hausti var lokað á aðgengi að Fjárhúsavík þar sem íbúar hafa á undanförnum árum fengið að losa garðaúrgang frá lóðum sínum. Svæðinu var því miður lokað vegna slæmrar umgengni og vegna þess að verið var að losa á svæðinu ýmisskonar úrgang sem ekki á þar heima, s.s. byggingar- og niðurrifsúrgang.
Núna ætlar sveitarfélagið að láta aftur reyna á að hafa Fjárhúsavík opna.
Fjárhúsavík er eingöngu ætluð fyrir losun á garðaúrgangi frá íbúum sveitarfélagsins.
Starfsfólk biðlar til íbúa um að ganga vel um svæðið og taka með sér allt rusl sem mögulega getur fylgt með garðaúrgangnum. Ruslatunna er á svæðinu sem hægt er að setja poka í eftir að gras og gróðurleifar hafa verið losuð úr honum, þó að best sé að taka hann með aftur heim og endurnýta.
Sé fólk í vafa um hvort úrgangurinn eigi heima í Fjárhúsavík er fólki velkomið að hafa samband á vinnutíma við Önnu umhverfisfulltrúa í síma 470-8007 eða Skúla í áhaldahúsinu í síma 470-8027 til þess að fá nánari upplýsingar og ráðleggingar.
Áfram mun gámaportið á Höfn taka við garðaúrgangi og steinefnum (t.d. múrbroti).
Losunarstaðir fyrir úrgang eru takmörkuð auðlind. Nýtum þá með hófsemi og förum vel með bæjarlandið. Hjálpumst að og minnum hvort annað á umgengnis reglurnar.