Vöktun náttúruverndarsvæða

0
525
Skúmapar á Breiðamerkursandi, en þar voru hreiður á ákveðnu svæði kortlögð. Í allt fundust 33 hreiður og af þeim misfórust 8 vörp árið 2020. Þörf er á að vakta skúmsvarpið við Jökulsárlón næstu árin, til að fylgjast með þróuninni. Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands

Náttúrustofa Suðaustur­lands tekur þátt í stóru samstarfsverkefni Náttúru­fræðistofnunar Íslands (NÍ), náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða um vöktun náttúrufars á ákveðnum ferðamannastöðum. Verkefnið er unnið af frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en NÍ heldur utanum verkefnið og er ábyrgðaraðili þess. Markmiðið er að vakta friðlýst svæði og aðra viðkvæma staði sem eru fjölsóttir og undir miklu álagi vegna ágangs ferðamanna og er áhersla á að skoða áhrif mannsins á vistgerðir og plöntur, jarðminjar, fugla og spendýr.
Áhrif fólks á náttúru eru þekkt víða og birtast með ýmsum hætti. Algeng neikvæð áhrif vegna umferðar ferðamanna eru m.a. gróðurskemmdir, gróður- og jarðvegseyðing, skemmdir á jarðminjum, mengun, skerðing búsvæða og truflun á dýralífi með margvíslegum afleiðingum fyrir viðkomandi tegundir. Hve mikil áhrifin verða fer eftir fjölda gesta, en einnig hegðun þeirra og dreifingu í tíma og rúmi, ásamt þeim innviðum og stýringu sem er til staðar á svæðunum. Ein helsta áskorun verkefnisins núna er að greina þá þætti sem mæla áhrifin af álagi ferðamanna sem best.
Á Suðausturlandi eru fjöldi vinsælla ferðamannastaða og eru sumir þeirra friðlýst náttúruvætti, aðrir innan þjóðgarðs og enn aðrir á einkalandi. Einnig eru staðir á svæðinu sem eru líklegir til að verða vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Slíkir staðir eru enn óspilltir og því er mikilvægt að fylgjast með áhrifum ferðamanna á náttúrufar þeirra staða frá upphafi.
Undirbúningur, gagnaöflun og þróun aðferða hófst árið 2019, en sjálf vöktunin vorið 2020. Unnið var eftir samræmdum aðferðum um allt land, allt eftir viðfangsefni vöktunar á hverjum stað. En notast er m.a. við endurtekna ljósmyndun, flugmyndatökur, lengdarmælingar og gert var mat á gróðurþekju og jarðvegi auk bergmyndana, GPS hnitun, talningar og fleira.

Göngustígur að Hangandifossi í Múlagljúfri. Stígurinn var dæmigerður kindaslóði og ekki breiður en hefur með aukinni umferð vaðist út á köflum. Margir kjósa að ganga frekar á mjúkum mosa og gróðri meðfram stígnum, en á grófu grjóti og möl, sé þess kostur. Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands

Náttúrustofan sinnti vöktun á nokkrum svæðum á Suðausturlandi sumarið 2020. Staðir sem voru vaktaðir eru á Breiðamerkursandi, við Múlagljúfur og í Eldhrauni. Einnig var gert ástandsmat við Fjaðrárgljúfur og Dverghamra. Á Breiðamerkursandi hefur umferð ferðamanna og ferðaþjónustunnar aukist síðustu ár og vegir og slóðar vaðist út á köflum. Áhyggjuefni er hvaða áhrif þetta hefur á dýr sem eiga búsvæði á sandinum. Skúmar, kríur og helsingjar voru vaktaðir nærri Jökulsárlóni og selir voru taldir við látur á Breiðamerkursandi. Einnig voru stígar á og við jökulöldur nærri Jökulsá á Breiðmerkursandi skoðaðir og myndaðir. Við Múlagljúfur voru stígar og fuglar skoðaðir, en í Eldhrauni hentistígar og traðk.

Slóðar og traðk við eitt af útskotum í Eldhrauni. Þar er mikið álag á þunnt gróðurlag og einnig myndast „hentistígar“ (þegar fólk styttir sér leið) víða út frá fyrri slóðum við tiltölulega litla gangandi umferð. Mynd: Náttúrustofa Suðausturlands

Verkefninu verður fram haldið næstu árin og munu einhverjir staðir bætast við og vöktun þeirra staða sem voru heimsóttir í sumar endurskoðuð. Næstu skref í verkefninu er að leggja mat á árangur af vinnu sumarsins með öðrum stofnunum, vinna úr niðurstöðum og í framhaldinu skerpa á einstökum aðferðum og verkefnum fyrir vöktun næsta árs og ára. Þegar vöktunin hefur staðið í nokkur ár, verður væntanlega hægt að sjá áhrifin til lengri tíma og bregðast við því sem þarf að bæta. Verkefninu fylgja mikil samskipti milli stofnana sem er jákvætt því þannig miðlast þekking á milli rannsóknaraðila og styrkir samstarf til framtíðar.

Kristín Hermannsdóttir
forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands