Vínartónleikar og skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands 2022

0
473

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands fagnar sumri með Vínartónleikum á Kirkjubæjarklaustri og Höfn og skólatónleikum fyrir nemendur í fjórum grunnskólum; Víkurskóla, Kirkjubæjarskóla, Grunnskólanum Hofgarði og Grunnskóla Hornafjarðar.
Fyrri Vínartónleikarnir verða 7. maí á Klaustri og þeir seinni í Menningarmiðstöð Hornafjarðar sunnudaginn 8. maí. Á efnisskrá tónleikanna verða Straussvalsar og Kampavínsgallopp svo eitthvað sé nefnt og einsöngvari með hljómsveitinni verður Sigrún Hjálmtýsdóttir.
Mánudaginn 9. maí mun svo hljómsveitin halda skólatónleika fyrir nemendur grunnskólanna. Aðalefni þeirra tónleika er tónverkið Lykillinn eftir þá Tryggva M. Baldvinsson og Sveinbjörn I. Baldvinsson sem er eins konar „Pétur og úlfurinn“ úr íslenskum sagnaveruleika. Sögumaður er Stefán Sturla Sigurjónsson leikari. Skólatónleikunum líkur með því að nemendur syngja Á Sprengisandi með hljómsveitinni, öll þrjú erindin enda búnir að æfa vel með tónmenntakennurum sínum áður en þeir mæta á tónleikana.
Greta Guðnadóttir er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson.