Vilt þú taka við Eystrahorni?

0
259

Eftir lærdómsríkt og mjög skemmtilegt ár sem ritstjóri Eystrahorns hef ég ákveðið að snúa mér að öðrum verkefnum. Þakklæti er mér efst í huga eftir árið, það var dýrmætt að finna fyrir stuðningi samfélagsins og góðum móttökum hvert sem tilefnið hefur verið.
Ég vil því nota tækifærið og þakka öllum sem hafa komið að blaðinu með einum eða öðrum hætti. Allir sem hafa auglýst, án ykkar væri ekkert Eystrahorn. Takk styrtktarvinir fyrir ykkar framlag, allir sem hafa sent inn greinar, forsíðumyndir og uppskriftir. Þakkir til allra sem voru til í að taka þátt í spurningu vikunnar og til þeirra sem buðu mér inn á heimili sín til þess að segja sögu sína í viðtali og síðast en ekki síst kærar þakkir til Guðlaugar Hestnes sem les blaðið í hverri viku og sér til þess að þið lesið efni á góðu og réttu máli.
Ég vissi það fyrir en skildi það enn betur eftir að hafa tekið við hversu mikilvægt það er að miðli eins og Eystrhorni sé haldið úti, bæði er þetta mikilvægur vettvangur fyrir upplýsingar sem þurfa að komast til skila en einnig þjónar Eystrahorn mikilvægum menningarlegum tilgangi.
Þetta er vettvangur fyrir allskonar mikilvægt og minna mikilvægt en alltaf merkilegt. Vettvangur til þess að fá innsýn í flóru samfélagsins, vettvangur þar sem allir geta viðrað sína skoðun og vettvangur þar sem við getum lesið um, samgleðst og verið stolt af því sem gott er gert.

Eystrahorn óskar hér með eftir nýjum umsjónaraðilum til þess að taka við keflinu frá og með áramótum og halda áfram með þennan mikilvæga miðil sem Eystrahorn er.
Áhugasamir hafið samband við eystrahorn@eystrahorn.is.

Með virðingu og vinsemd
Arndís Lára Kolbrúnardóttir