Vilja auka athygli á bátavernd

0
1000
Bátaskráin afhent Fornminjanefnd. F.v. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor, formaður nefndarinnar. Helgi Máni Sigurðsson, formaður Sambands íslenskra sjóminjasafna og Hafliði Már Aðalsteinsson, skipasmíðameistari og formaður Bátasafns Breiðafjarðar.

Samband íslenskra sjóminjasafna gaf nýverið út fornbátaskrá og leiðarvísi við mat á varðveislugildi eldri báta og skipa. Útgáfan er afrakstur mikillar vinnu undanfarin ár og hefur það að meginmarkmiði að vekja aukna athygli á stöðu bátaverndar í landinu. Um tuttugu söfn, setur og sýningar um land allt eiga aðild að samtökunum. Fornminjasjóður og Safnasjóður styrktu verkefnin.

Fornbátaskrá

Tilgangurinn með gerð fornbátaskrárinnar er að safna upplýsingum um varðveitta fornbáta og gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu; þ.e. hvaða bátar hafa verið teknir til varðveislu, gefa greinargóða lýsingu á þeim, segja sögu þeirra o.fl. Lögð var áhersla á gildi einstakra báta en einnig að fá yfirsýn yfir hvað til er í landinu og draga fram sérstöðu bátanna sem hluta af heild.
Skránni er ætlað að stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki. Það getur bæði átt við um ný aðföng á söfnum, báta sem ekki hafa hlotið formlega viðurkenningu sem safngripir og grisjun, en þá er yfirsýn grundvallaratriði. Þá mun skráin væntanlega einnig koma að gagni við styrkveitingar.
Ennfremur er skránni ætlað að gera bátaarfinn sýnilegan umfram það sem nú er í þeirri von að auka skilning stjórnvalda og almennings á gildi hans. Skráin mun jafnframt stórbæta aðgengi almennings að þessum hluta menningararfsins og auðvelda frekari rannsóknarvinnu.
Skráin tekur til báta í vörslu safna, sýninga og setra sem og báta á skipaskrá Samgöngustofu (þ.e. eru sjófærir) og eru eldri en frá 1950, en samkvæmt núgildandi lögum eru þeir aldursfriðaðir. Heildarfjöldi báta í skránni er um 190. Fyrirhugað er að halda skráningunni áfram með því að láta hana ná einnig til báta í einkaeigu.

Leiðarvísir við mat á varðveislugildi eldri skipa og báta

Tilgangurinn með gerð leiðarvísisins er fyrst og fremst að stuðla að bættri bátavernd og gera alla vinnu markvissari við ákvarðatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki. Einnig að vera hjálpartæki við endurmat á varðveislugildi báta.
Við vinnslu þessa leiðarvísis hefur verið tekið mið af hliðstæðum matsreglum á Norðurlöndunum. Segja má að ýmsar hugmyndir og verklag í leiðarvísinum séu fengnar að láni, sérstaklega frá Danmörku, en sumt er frumsmíði eða innblásið af norrænum fyrirmyndum. Í þessu sambandi má nefna að Norðurlöndin hafa ákveðið samráð sín á milli við bátavernd og sækja gjarnan hugmyndir hvert hjá öðru til að hafa til hliðsjónar við mótun eigin reglna.
Settir eru fram matsþættir, í fimm liðum, við mat á varðveislugildi báta, þ.e. menningarsögulegt gildi, upprunalegt ástand, upplifunar og fagurfræðilegt gildi, ástand, sjóhæfni og notkun. Allir matsþættir undir hverjum lið fyrir sig fá einkunn og að lokum er reiknað meðaltal.

Bátafriðunarsjóður

Á Íslandi er ekki til bátafriðunarsjóður. Hann hefur lengi verið mikið áhugamál aðildarfélaga sambandsins. Bátafriðunarsjóður hefur verið til umræðu á Alþingi í tvígang, árin 2000 og 2011, en aldrei orðið að veruleika.
Nú er hægt að sækja um styrki í fornminjasjóð fyrir viðhaldi á bátum og skipum, sérstaklega þeim sem eru eldri en frá 1950. Framlög í sjóðinn eru hins vegar allt of lág til að sinna öllum þeim verkefnum sem honum eru falin, m.a. fyrir það að honum er einnig ætlað að fjármagna fornleifarannsóknir í landinu.
Stjórn sambandsins hefur tekið saman yfirlit yfir framlög úr Fornminjasjóði frá árinu 2013, en það var fyrsta árið sem sjóðnum var falið það hlutverk að veita styrki til verndunar báta og skipa, til ársins 2019. Alls nemur úthlutunin, til báta og skipa, á þessu tímabili um 13,5 milljónum króna sem er aðeins um 5% af heildarúthlutun sjóðsins á framagreindu tímabili. Á sama tíma hefur Húsafriðunarsjóður veitt styrki til verkefna tengdum verndun húsa og kirkna að upphæð 1,4 milljarði króna.
Það er von okkar að hreyfing fari nú að komast á þessi mál og fjárveitingar til verndunar báta og skipa verði efldar. Þannig má koma í veg fyrir að fleiri varðveisluhæfir bátar og skip glatist og þar með sá mikilvægi þáttur í sögu landsins sem bátar og skip gegndu.

Með vinsemd,
Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna.
Helgi Máni Sigurðsson formaður, Anita Elefsen gjaldkeri, Sigurður Bergsveinsson ritari.