Viðtal við forseta NEMFAS

0
439

Almennt um félagslífið í FAS

Félagslífið í FAS frábært. Nemendur skólans búa auðvitað til félagslífið en til þess að það verði enn betra er nemendafélagið með klúbbastarf. Í hverjum klúbbi er einn formaður og einn ritari. Formaður fer í nemendaráð og sér um að skipuleggja stærri viðburði með forsetum og hagsmunafulltrúa. Dagmar Lilja Óskarsdóttir er forseti nemendafélagsins, Júlíana Rós Sigurðardóttir er varaforseti og Filip Orzedowski er hagsmunafulltrúi. Hver klúbbur þarf að halda viðburð einu sinni yfir önnina og í hverjum klúbbi þurfa að vera að minnsta kosti þrír nemendur. Starfandi klúbbar í FAS eru Rúntklúbburinn, FAS Podcast, Poolklúbburinn og tónlistarklúbbur svo eitthvað sé nefnt.

Í hverju felst forsetahlutverkið?

Forsetahlutverkið snýst um að vera fyrirmynd og sjá um skipulagningu og störf nemendaráðs. Þar að auki eru forsetar milliliður á milli nemenda og kennara. Forsetar sjá einnig um ásýnd nemendaráðsins út á við og sjá því um auglýsingu viðburða og annars slíks auk þess sem þeir verða að hafa góða mætingu í skólann.

Hvað gerið þið til að ná þeim félagslegu markmiðum sem þið hafið sett nemendafélaginu?

Ákvarðanir nemendaráðsins eru teknar á nemendaráðsfundum, þar eru hugmyndir nemenda og forseta ræddar og viðburðir settir í framkvæmd. Nemendaráðið reynir að vera virkt og halda viðburði reglulega yfir önnina.

Hvers vegna teljið þið að gott félagslíf sé mikilvægt í skólanum?

Til þess að fólk geti upplifað framhaldsskóla og félagslífið eins og það á að vera í framhaldsskólum. Skólinn snýst ekki bara um námið, heldur líka að hafa gaman og mæta á viðburði.

Álítið þið ykkur valdameiri en Lind skólameistara?

Í félagslífinu gera forsetarnir meira en skólameistarinn. Þar að auki leita nemendur frekar til nemendaráðs en skólameistara hvað varðar félagsleg mál. Það er mikilvægt fyrir nemendur að geta leitað til jafningja en ekki bara starfsmanna skólans.

Höfundar: Anna Lára, Isabella Tigist, Nína, Helga, Siggerður, Marie Salm