Viðbót við söguskilti í Öræfum

0
1669
Spilið úr botnvörpungnum Clyne Castle er nú komið upp við söguskiltin sem standa við áningastað vestan við Kvíá

Í ágúst í fyrra voru afhjúpuð tvö söguskilti við áningastað vestan við Kvíá í Öræfum, annað um strand togarans Clyne Castle og hitt um skipströnd í Öræfum. Nú hafa margir Öræfingar og fleiri sem þar eiga leið hjá velt fyrir sér hvaða hlut sé búið að koma upp við skiltin. Þessi hlutur er spilið úr togaranum Clyne Castle, en félagið Bóasson/Clyne Castle undir forystu Ólafíu Herborgar Jóhannesdóttur stóð fyrir framkvæmdunum en það stóð einnig fyrir því að söguskiltin voru sett upp. Ólafía hannaði og samdi textann fyrir skiltið um strand Clyne Castle en fyrir hitt skiltið fékk hún leyfi til að nota verk Kvískerjabræðra sem nutu aðstoðar Ragnars Franks Kristjánssonar fyrrverandi þjóðgarðsvarðar og Sigurgeirs Skúlasonar kortagerðarmanns við skrásetningu á skipströndum á þessum slóðum.

Clyne Castle á strandstað árið 1923

Clyne Castle strandaði við sandrif í Bakkafjöru fyrir framan Kvísker þann 17. apríl 1919 og hefur flakið verið á sama stað í yfir 100 ár. Föðurafi Ólafíu, Valdór Bóasson keypti skipið á strandstað ásamt Jóhanni Hanssyni og ætluðu þeir að bjarga skipinu af strandstað en skipið var einungis tveggja ára og sat heilt og óskemmt í sandinum. Þeir töldu auðvelt að koma skipinu aftur á flot og það var til mikils að vinna ef það hefði tekist. Mikið var reynt að koma skipinu á flot en eingöngu var hægt að vinna við þetta á sumrin og var reynt næstu sumur með hléum að reyna að koma skipinu úr fjörunni en verkið reyndist mönnum ofviða, sum sumur var þó nánast ekkert unnið að björgun. Árið 1923 gáfust þeir upp við að reyna bjarga skipinu eftir margar árangurslausar tilraunir og allir fjármunir búnir og vel það.
„Það var eins og mér hafi verið ætlað að taka spilið, þegar ég var á ættarmóti á þessum slóðum árið 2005 þá rétt sást í spilið en síðan þá hef ég verið með sögu skipsins á heilanum. Síðan 2005 hefur alltaf meira og meira af spilinu komið upp úr sandinu. Það var eins og það væri að koma upp úr og biði eftir því að láta taka sig.“ segir Ólafía.
„Það er stundum eins og ég sé leidd áfram í þessu verkefni. Eftir að ég var búinn að fá leyfi frá Minjanefnd og landeigendum að flytja spilið úr fjörunni að skiltunum þá var ég að hugsa um hvernig ég ætlaði að koma þessu blessaða spili upp.Við vorum á ferð í Öræfum og stoppuðum við áningastaðinn þar sem skiltin eru og fórum framhjá vörubíl og mér fannst eins og ég þyrfti að spyrja bílstjórann út í hvernig væri best að ná því upp. Við rétt misstum af honum en ég ákvað að elta hann og náði svo tali af honum í síma við Freysnes og þá var þetta Haukur Gíslason sem var að sjá um brúarsmíðina yfir Kvíá og eftir að ég útskýrði erindi mitt þá sagði hann strax já og að þetta væri ekkert mál. Endaði þetta með því að hann sá um að koma spilinu upp úr sandinu.“ Ólafía er þakklát allri þeirri velvild sem mætti henni við verkefnið.
„Reynir Gunnarsson hjá Vegagerðinni og hans menn aðstoðuðu við að koma upp undirstöðum fyrir spilið og unnu nást allt verkið fyrir okkur og svo hefur Gísli Jónsson á Hnappavöllum verið mitt helsta bakland, veitt mér mikla aðstoð og alltaf verið til staðar og einnig Jóhann Viðar og Valdór bræður mínir. En allir sem hafa komið að þessu hafa verið mjög hjálplegir“ segir Ólafía
Verkefnið fékk styrk frá Kvískerjasjóði og Sveitarfélaginu Hornafirði. Stefnt að því að koma upp litlu söguskilti við spilið í náinni framtíð.

Nánar verður farið í sögu strands Clyne Castle í næsta tölublaði.