Verkamaður í kólatanki

0
869
Hljómsveitin The Clash, drekkandi kók

„Við drekkum ekki blóð verkamanna“

Þetta heyrðist gjarna í mínu ungdæmi þegar spurt var hvort hafa mætti kók með matnum. Börnin skildu þetta sjálfsagt hvert á sinn máta en flest held ég að hafi reynt að verjast þessari trámatísku mynd með því telja sér trú um ekki væri bókstaflega átt við að verkamenn væru verkaðir í drykkinn.
Með einhverskonar pólitískri vitund fylgdi svo frekari skilningur á því að þetta væri spurning um stétt og fjármagns- og framleiðslutækjaeigendur andspænis þeim eignalausu sem sjá um sjálfa framleiðsluna. Við værum að drekka arðrændan sveita verkamannsins.

Þetta snerist aldrei um hreina og klára blóðdrykkju. Eða hvað? Fyrir allmörgum árum leitaði ég að heimildum fyrir grein um hljómsveitina The Clash, sem bæði ortu um Coca Cola og verkalýðinn og sátu fyrir með drykkinn dimma á plakati fyrir næstsíðustu plötu sína – sem öðrum þræði fjallaði um verkamenn og öreiga í suðaustur Asíu og vestræn áhrif – þá fann ég gamla flökkusögu um verkamann sem datt ofan í tank fullan af kóki og drukknaði, og verksmiðjueigendur af fullkomnu virðingaleysi við verkamanninn, fjölskyldu hans og möguleikann á frekari greftrun – tímdu ekki að tæma tankinn til að ná honum út. Þegar víst þótti að verkamaðurinn væri að öllu uppleystur var innihaldið sett á flöskur og selt og reynt að láta einsog ekkert hefði gerst.
Þetta átti ýmist að hafa gerst í Afríku eða suður Ameríku, og tankurinn þá fullur af sírópi eða sítrusblöndu fyrir drykkinn – og fór þá sjálfsagt eftir því hvort þau sem söguna segja vildu þurfa að útskýra hvernig síróp leysir upp líkamsleifar.
Eyðingarmáttur drykkjarins, samanber tanksöguna og óhollustuna er líka efni í margar sögur – þar á meðal þá að lögreglumenn í Bandaríkjunum noti kók til leysa upp og hreinsa blóð á vettvangi ofbeldisbrota. Rétt er að taka fram að í mörgum löndum er venja að lögreglan eða einkaaðiljar ráðin í gegnum hana, sjái um slíkt hreinsunarstarf – það er því ekki endilega ástæða til að tortryggja af hverju lögreglumenn þurfi að búa yfir þekkingu til að afmá ummerki um afbrot.

Einnig, ef leitað er á youtube eða leitarvél undir Life Hacks – Coca Cola – WC. Í beinu framhaldi af áherslu á bráða óhollustu má líka rifja upp að Coca Cola lét framleiða drykkjarílát með letri heimamanna á Nýja Sjálandi – þá hafi umræddur texti átt að vera Komdu sæll, vinur en þýðingarvélin eitthvað beyglast eða freudíska slifsið tekið yfirhöndina og á Maorí mátti lesa “Komdu sæll, dauði”.

„Blóð verkamanna“ og „Coca Cola“ – skilar ekki mörgum niðurstöðum í hefðbundinni leit í dag. Lík í framleiðslutanki kallar fram yfirlit á skyldum flökkusögum, og tankurinn þá fullur af bjór eða rauðvíni. Sögur um lík í vatnsforðatanki lítilla bæja eru ennfremur ægigamlar.
Það kemur kanski ekki á óvart að það þarf að fara til Rússlands til að finna umræðu um Kólað sem blóð verkamanna. Í Kommersant árið 2002 er grein sem heitir einfaldlega „Kóka Kóla – blóð afrískra verkamanna“ en hún fjallar reyndar um útbreidd mótmæli og baráttu fyrir því að Kóka kóla hjálpi starfsfólki sínu í löndum Afríku, sem eru með Aids eða sýktir af HIV, eða greiði fyrir betra heilbrigðiskerfi eða annað í áttina.
Einnig fannst á rússneskri bloggsíðu grein, sögð unnin uppúr frönskum og belgískum blaðaskrifum, með yfirskriftinni. „Blóði blandað í kók og Pepsi í helgisiðatilgangi“

Þar er farið um víðan völl. Sagt frá því að á áttunda áratugnum hafi Coca Cola flutt margar verksmiðjur sínar úr landi – sem hingað til hefur mátt
skilja sem ásókn í ódýrara vinnuafl og vanvirkari verkalýðsfélög en hér er aftur útskýrt að í Bandaríkjunum hafi stór mótmæli gegn framleiðslunni og samhliða rannsóknir á áhrifum drykkjarins á líkamann, gert að verkum að fyrirtækinu hafi ekki verið lengur vært í landi þarsem fyrirfinnst heilbrigðiseftirlit og neytendavernd. Sumir rannsóknaraðilar komust að þeirri niðurstöðu að regluleg neysla kóladrykkja væri jafnvel hættulegri en óhófslegar reykingar.

Síðan fylgja þónokkuð hæpnar fullyrðingar um að Coca Cola verksmiðjum sé hvergi vært nema í löglausum ríkjum eða þar sem atvinnulífið hefur slíkt frelsi að um defacto lögleysi sé að ræða.
Því næst er hættan útskýrð með vísun í atóma-minni vökva. Þau fræði virðast einkum og sérílagi snúa að lundarfari vökvans, enda er hann býsna tilfinningasamur samkvæmt þeim. Hann geymir öll jákvæð og neikvæð boð og umhverfiskynjun – en er sérstaklega móttækilegur fyrir því neikvæða – þannig ef dagurinn er, segjum, 95 % jákvæður og skemmtilegur en síðan heyrist einhver bölva stöku ókvæðisorði – þá er þar með komin eitrun í vökvann og hann orðinn stórhættulegur inntöku.
En þessi neikvæðni er ekki bara bundin við rotvarnarefni, sykurlíki og konsentröt og annað hefðbundið eitur, heldur einsog áður segir, illar hugsanir líka og bölbænir.
Því næst er þeirri fullyrðingu fleygt fram að svartir Múhameðstrúarmenn í Ameríku eigi að hafa gagnrýnt Coca Cola fyrir að hafa í vörum sínum allskonar „leifar“ af dýrum sem við slátrun voru ekki meðhöndluð á réttan hátt gagnvart þeirra kennisetningu. Inní það blandast vitanlega að Coca Cola hefur sterkar tengingar við Ísrael, og sérstaklega svokallaða hernaðarvaldstjórn í Ísrael, sem þýðir að fyrirtækið er einn stærsti einstaki styrkveitandi ríkisins – fjármunir sem fara jafnan alfarið í vopnakaup og hernaðarrekstur.
Þá er útskýrt að röng slátrunaraðferð leiði af sér sársauka og óhugnað fórnardýranna og slíkar neikvæðar tilfinningar geymist í blóðinu og leggi áðurnefnda bölvun á vörurnar sem það innihalda.
Svo er gengið enn lengra og lagt til að ekki séu það einungis dýr sem slátrað er fyrir málstað og samsetningu Coca Cola, heldur sé mannfólki einnig fórnað – bókstaflega, með tilheyrandi siðum og serimóníum.

Alhæfingin um þjóðfélagshópa hér kemur úr upprunalegu greininni, og er sjálfsagt ekki illa meint heldur frekar sjálfsagt sett svo fram í einhverskonar einföldunarskyni.
Niðurstaðan er sú að burtséð frá meintri, og vísendalega sannaðri óhollustu drykkjarins – þá er aukin ástæða að athuga þessa neyslu, ekki síst nú þegar stærri og stærri hópur vill ekki innbyrða dýraafurðir, menningarkimi sem nýtur æ meiri velvildar og skilnings. Aukinheldur er langtífrá búið að gera „pólitíska þáttinn“ jafn óþarfan einsog samfylkingaröflin töldu fólki trú um á tíunda áratugnum. Þvertámóti hefur mikilvægi málefna mismunar, mismununar og stéttar frekar aukist.

Gísli Magnússon
bókavörður