Verkalýðsfélagið Jökull

0
2003

Forveri Verkalýðsfélagsins Jökuls var Atvinnufélag Hafnarverkalýðs sem stofnað var 2. janúar 1929 af 11 verkamönnum á Höfn. Aðalhvatamaður stofnun þess var Jens Figved, verslunarmaður frá Eskifirði. Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Steinsen. Félagið beitti sér fyrir ýmsum réttindamálum verkamanna en konur fengu ekki inngöngu. Á fyrstu tveimur starfsárunum gengu að minnsta kosti 23 menn í félagið en 82 einstaklingar á starfstímanum öllum.
Aðalvinnuveitandi félagsins var Kaupfélag Austur-Skaftfellinga. Það setti því verulegan svip á starfsemi félagsins að Jón Ívarsson kaupfélagsstjóri gekk í félagið árið 1932. Vera hans í félaginu og áhrif á réttindabaráttu verkamanna leiddi loks til þess áratug síðar að Atvinnufélag Hafnarverkalýðs var lagt niður á miklum átakafundi þann 3. janúar 1942. Sama kvöld var stofnað nýtt félag verkamanna á Höfn, Verkalýðsfélagið Jökull.
Helsti forystumaður að stofnun Verkalýðsfélagsins Jökuls og fyrsti formaður þess var Benedikt Þorsteinsson. Hann gegndi formannsstarfinu í rúman aldarfjórðung eða frá 1942 til 1968. Benedikt var einnig helsti forsprakki þess að leggja niður gamla félagið og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi tök kaupfélagsstjórans á verkamönnum. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Aðalsteinn Aðalsteinsson og Óskar Guðnason. Stofnendur voru 39.
Félagið var áberandi í fjölmiðlum út af deilum sem spruttu upp um verðlag á kolum á Hornafirði árið 1943. Umræðan barst inn á Alþingi og blandaðist Jónas Jónsson frá Hriflu, meðal annarra, inn í þær deilur.
Félagið beitti sér strax í upphafi fyrir nýjum samningum um Bretavinnu og fleira. Félagið efldist smám saman og varð tryggur bakhjarl í réttindabaráttu verkafólks. Það beitti sér einnig snemma fyrir ýmsum framförum og átti frumkvæði að atvinnuuppbyggingu á Hornafirði.
Fyrstu konurnar fengu inngöngu í félagið árið 1951. Þær tóku smám saman virkan þátt í félagsstarfinu og árið 1977 var fyrsta konan kjörin í stjórn félagsins. Árið 1992 gekk Verslunarmannafélag Austur-Skaftafellsýslu inn í Jökul.
Félagið kom sér upp orlofshúsum, íbúðum í Reykjavík og félagsaðstöðu auk þess að standa fyrir ýmis konar hagsmuna- og félagsstarfi. Félagið studdi einnig dyggilega við ýmis konar menningarstarf í héraðinu. Verkalýðsfélagið Jökull lét skrásetja sögu verkalýðshreyfingar í Austur-Skaftafellssýslu og gaf út bækurnar Þó hver einn megni smátt, árið 1994 og Kolalausir kommúnistar á Hornafirði, árið 1999. Bækurnar eru eftir Gísla Sverri Árnason.
Formenn Verkalýðsfélagsins Jökuls voru: Benedikt Þorsteinsson 1942-1969, Grétar Sigurðsson 1969-1973, Þorsteinn L. Þorsteinsson 1973-1980, Sigurður Örn Hannesson 1980-1985, Björn Grétar Sveinsson1985-1993 og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 1993-1999.

Hönnun merkis Verkalýðsfélagsins Jökuls á Höfn Hornafirði

Árið 1976 fór þáverandi formaður Verkslýðsfélagsins Jökuls, Þorsteinn L. Þorsteinsson fram á það við mig Einar D. G. Gunnlaugsson að ég gerði hönnunar tillögu að merki fyrir félagið.
Ég lagði fram hönnun mína að merki sem samþykkt var í stjórn félagsins.
Táknin í merkinu er 2 jöklar og jökullón.
Merkið var lagt af þegar Vökull Stéttarfélag varð til þann 31. október 1999 þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Stöðvarfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs og Verkalýðsfélagið Jökull á Hornafirði voru sameinuð.

Einar D. G. Gunnlaugsson

Einar ásamt Þóru konu sinnni. Þau bjuggu á Höfn á árunum 1974-1983 og störfuðu lengst af hjá KASK.Hjónin fluttu til Reykjavíkur vegna alvarlegs slyss sem Einar lenti í við uppbyggingu nýrrar síldarsöltunarstöðvar við bræðsluna árið 1983.
Einar ásamt Þóru konu sinnni. Þau bjuggu á Höfn á árunum 1974-1983 og störfuðu lengst af hjá KASK.Hjónin fluttu til Reykjavíkur vegna alvarlegs slyss sem Einar lenti í við uppbyggingu nýrrar síldarsöltunarstöðvar við bræðsluna árið 1983.