Verðlaunaafhending sigurtillögu um Leiðarhöfða

0
700

Gestkvæmt var í Svavarssafni miðvikudaginn 6. apríl enda ærið tilefni til mannfagnaðar. Framundan var að afhjúpa vinningstillögu um Leiðarhöfða á Höfn, en Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Sveitarfélaginu Hornafirði veglegan styrk í mars 2021 til þess að halda hugmyndaleit fyrir framtíðarnýtingu höfðans. Tilgangurinn var að móta umgjörð um hugsanlega uppbyggingu, bæta aðstöðu og aðgengi til útivistar og auka útsýnis- og náttúruupplifun svæðisins jafnt íbúum sem gestum til yndisauka. Fimm teymi voru valin til þátttöku í samkeppninni að loknu forvali, og voru allar tillögurnar kynntar við hátíðlega athöfn.
Það var tillagan „Umhverfis Leiðarhöfða“ sem bar sigur úr býtum, en þrjár arkítektastofur, Landmótun, Hjark og Sastudio mynduðu teymi um hana. Að sögn Sæmundar Helgasonar, formanns dómnefndar, var tillagan spennandi, vel útfærð og líkleg til þess að efla svæðið sem bæði áfangastað og útivistarsvæði. Einnig var hún talin uppfylla meginmarkmið hugmyndaleitarinnar sem er að efla Höfn sem ferðamannastað og búsetukost, með því að bjóða upp á einstakan áfangastað sem byggir á sérstöðu svæðisins.
Vinningstillagan gerir meðal annars ráð fyrir nýbyggingu með fjölnotarými, leiksvæði sem sækir innblástur í gömlu saltfiskgrindurnar sem áður voru nýttar í atvinnustarfsemi við höfðann, aðstöðu fyrir kajak ræðara, nestisrými í naustum, setstöllum til suðurs og vesturs, sem og endurvakningu Höfðatjarnarinnar. Athygli vakti hve mikla virðingu tillagan bar fyrir íbúakönnuninni sem sveitarfélagið stóð fyrir varðandi framtíð og þróun Leiðarhöfða vorið 2021, en á fjórða hundrað íbúar sveitarfélagsins tóku þátt í henni. Einnig var ljóst að höfundar tillögunnar höfðu kynnt sér litríka sögu höfðans vel og nýttu hana á frumlegan hátt til að glæða svæðið lífi. Næstu skref eru að hefja vinnu deiliskipulags fyrir svæðið sem byggir á hugmyndum vinningstillögunnar.
Samkvæmt dóm_nefndaráliti þótti vel hafa tekist til og að allar innsendar tillögur hafi sýnt faglega og metnaðarfulla nálgun. Allar tillögur voru unnar í samræmi við samkeppnislýsingu og
þær kröfur sem settar voru fram. Framsetning tillagnanna var skýr, aðgengileg og til fyrir­myndar, og lagði dómnefnd í vali sínu áherslu á að velja tillögu sem svarar best þeim viðmiðum sem sett voru fram í samkeppnislýsingu.

Árdís Erna atvinnu- og ferðamálafulltrúi, Sæmundur formaður dómnefndar ásamt Huldu, Jóhanni og Kristínu, fulltrúum vinningstillögunnar

Samkeppnin var haldin í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, og voru eins og áður sagði fimm teymi valin til þátttöku að undangengnu forvali. Alls sóttu níu teymi um þátttöku sem öll uppfylltu fagleg viðmið. Voru eftirfarandi fimm teymi dregin út til áframhaldandi þátttöku, í votta viðurvist; Landmótun, Hjark arkitektúr og Sastúdíó, MandaWorks og ALTA, VA arkitektar og Betula, Svavarsson Design Lab og Apríl arkitektar, Sei Stúdíó og Teiknistofa Norðurlands.
Nafnleynd hvíldi á framlögðum tillögum þar til dómnefnd skilaði áliti sínu. Dómnefnd var skipuð þremur fulltrúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar, þeim Sæmundi Helgasyni bæjarfulltrúa, Bryndísi Hólmarsdóttur bæjarfulltrúa og Björgvini Óskari Sigurjónssyni bæjarfulltrúa, sem og tveimur fulltrúum FÍLA, þeim Hermanni Ólafssyni landslagsarkítekt og Hildigunni Haraldsdóttur arkítekt. Jóhanna Helgadóttir arkítekt og skipulagsfræðingur var verkefnastjóri og ritari dómnefndar og Ólafur Melsted, landslagsarkitekt FÍLA, sinnti störfum trúnaðarmanns. Er þeim öllum þakkað fyrir verulega gott og ánægjulegt samstarf sem við höfum fulla trú á að muni leiða til metnaðarfullrar uppbyggingar á höfðanum, sem skipar svo sterkan sess í hugum heimamanna.

Árdís Erna Halldórsdóttir,
atvinnu- og ferðamálafulltrúi