Veitingastaðurinn Birki

0
759
Einar Birkir og Þórhildur

Einar Birkir Bjarnason og Þórhildur Kristinsdóttir reka nýjan veitingastað að Hafnarbraut 4 sem ber nafnið Birki, þar sem Humarhöfnin var áður til húsa. Einar Birkir er fæddur og uppalinn á Hlíð í Lóni og hefur alla tíð búið á Höfn fyrir utan þau ár sem hann fór suður til Reykjavíkur til að fara í matreiðslunám. Þórhildur Kristinsdóttir á ættir að rekja til Hafnar, en amma hennar og afi eru Ásgerður Arnardóttir og Gunnar Ásgeirsson. Þórhildur hefur alla tíð eytt miklum tíma á Höfn enda það skemmtilegasta sem hún gerir er að spila Hornafjarðarmanna. Um leið og Einar kláraði matreiðslunámið var tekin ákvörðun um að kaupa fasteign og flytja austur á Hornafjörð.

Afhverju ákváðu þið að opna veitingastað ?

Þetta kom okkur nú frekar á óvart. Einari hefur lengi langað að opna veitingastað en við sáum ekki fyrir okkur að það yrði alveg í bráð. Hann hefur alveg brennandi áhuga á matargerð og íslenskri náttúru en að opna veitingastað er ekki eitthvað sem hægt er að gera bara si svona. En þegar Gunnar afi kom til okkar í desember og bar undir okkur hvort við vildum reka veitingastað í þessu húsi ef hann myndi kaupa það þá auðvitað grípur maður tækifærið þegar það kemur. Hann fékk húsið afhent í janúar og þá byrjaði hugmyndavinna. Við hófumst handa við að taka neðri hæðina í gegn og tóku þá við nokkrir mánuðir í þá vinnu. Arkitekt hússins er Þórir Baldvinsson en okkur þótti mikilvægt að láta húsið njóta sín en það var byggt árið 1937 en samt sem áður vildum við gera staðinn að okkar.

Staðurinn lítur vel út eftir breytingarnar

Hver er hugmyndin bakvið staðinn ?

Í grunninn viljum við eingöngu nota íslensk hráefni, hornfirsk eða austfirsk eins mikið og við getum. Einar er hugmyndasmiðurinn bakvið allt sem gerist í eldhúsinu og það skemmtilegasta sem hann gerir er að fara út í náttúruna og smakka allt það sem á vegi hans verður, óháð því hvort það er raunverulega ætt eða ekki. Allur maturinn er gerður frá grunni og við eigum nokkra góða vini á Höfn með flotta garða sem leyfa okkur að fá hjá sér plöntur, jurtir og annað sem leynist þar. Með árstíðabreytingum munu hráefni í matargerðinni breytast. Til að byrja með vildum við bara byrja með lítinn matseðil á meðan við erum að koma okkur af stað og keyra svolítið á smáréttum. Þannig þurfa viðskiptavinirnir ekki alltaf að fá sér aðalrétt heldur getað fengið sér nokkra smárétti og jafnvel deilt. En svo er aldrei að vita hvernig við breytum þessu í framtíðinni.

Tómas þjónar til borðs

Afhverju nafnið Birki?

Þessi tenging við íslenska náttúru og íslensk hráefni er okkur mjög hugleikin og því fórum við að leita að hinu fullkomna nafni. Ég fékk hugmyndina af nafninu Birki, því það er nú algengasta trjátegund á Íslandi og einnig er mjög aðgengilegt að nota birki í matargerð, eins og bleikjan okkar sem er birkireykt. Svo heitir Einar nú Einar Birkir en honum leist vel á nafnið þar til hann fattaði tenginguna við sig. Við settum nafnið Birki aðeins á hilluna en það kom alltaf aftur til okkar og því var tekin ákvörðun um að nefna staðinn Birki.

Hver eru framtíðaráform hjá Birki ?

Það fyrsta sem verður gert er að klára breytingarnar á neðri hæðinni og taka efri hæðina í húsinu í gegn síðar í ár. Fyrir utan það þá eru engar hömlur. Við sjáum fyrir okkur að skipta um matseðill eftir árstíðum og prófa okkur áfram í allskonar skemmtilegu eftir að sumrinu lýkur. Við ætlum bara gera það sem okkur finnst skemmtilegt og sjá hvert það leiðir okkur.

Við viljum þakka Hornfirðingum alveg sérstaklega vel fyrir hlýjar og góðar móttökur!