Uppgjör hauststarfa í sauðfjárrækt í Austur-Skaftafellssýslu 2022

0
316
Erla og Bjarni bændur í Viðborðsseli eru handhafar Guðjónsskjaldarins árið 2022

Þátttaka í lambadómum í Austur-Skaftafellssýslu var með minnsta móti í haust. Tæp 32% færri lömb voru dæmd 2022 miðað við árið 2021. Dæmd voru alls 2004 lömb, þar af 437 lambhrútar og 1567 gimbrar.
Vænleiki lamba var heldur lakari miðað við síðasta ár enda var það ár einstakt. Lambhrútar voru að meðaltali 47,9 kg, með 17,8 í lærastig og með 84,8 heildarstig. Ómvöðvi var að meðaltali 29,9 mm, ómfita 3,0 mm og lögun 4,0. Gimbrar voru 41,7 kg að meðaltali, með 17,4 lærastig, 28,6 mm bakvöðva, 3,0 mm ómfitu og lögun 3,9.
Alls voru 57 lambhrútar með 87,0 heildarstig og þar af var þrír með 88,5 heildarstig og níu með 88,0 heildarstig. Þrír efstu lambhrútar sýslunnar eru frá þremur búum og voru allir með 88,5 heildarstig. Í þriðja sæti er lambhrútur númer 17 frá Fornustekkum með 56,0 fyrir alls 2 sem er samanlögð stig fyrir háls/herðar, bringu/útlögur, bak, malir og læri og 33 mm bakvöðva. Hann er undan Bæti 20-040 Drekasyni 13-953 og móðurföðurfaðir er Hvati 13-926. Í öðru sæti er lambhrútur númer 7121 frá Setbergi. Hann var með 56,0 fyrir alls 2 og með 35 mm bakvöðva. Hann er undan Lúkas 20-503 sem er sonarsonur Salamons 10-906 og Björt 17-712 sem er undan Berg 13-961. Gaman að geta þess að Björt 17-712 átti einnig verðlaunalambhrút í öðru sæti í fyrra, 2021.
Í fyrsta sæti er lambhrútur númer 274 frá Viðborðsseli með 88,5 heildarstig, 57,0 fyrir alls 2, 39 mm ómvöðvi, 3,6 mm ómfita og 5,0 í lögun. Hann var 61 kg. Lambhrútur 274 er undan Gimli 20-876 og í móðurætt er Bergur 13-961 á bak við hann. Lambhrútur 274 frá Viðborðsseli er handhafi Guðjónsskjaldarins haustið 2022.
Verðlaunahrúturinn Viðborðs­seli númer 274 var með þykkasta bakvöðvann, 39 mm og tveir lambhrútar náðu 38 mm bakvöðva. Númer 3 frá Brekku undan Landa 18-506 Óðinssyni 15-992 og númer 2149 frá Fornustekkum undan Galla 20-875. Í meðfylgjandi töflu má sjá efstu lambhrúta í sýslunni.
Stigahæsta gimbrin haustið 2022 er númer 22-201/7122 og er frá Setbergi með 37,0 stig alls. Hún er tvílembingur á móti lambhrútnum 7121 sem var í öðru sæti. Hún var 49 kg, 30 mm ómvöðva, 10,0 fyrir frampart og 19,5 fyrir malir/læri. Alls voru 37 gimbrar með 36,0 í heildarstig. Tvær gimbrar náðu 38 mm bakvöðva og báðar frá Brekku. Önnur númer 22-280 undan Gimli 20-876 og hin númer 167 undan Galla 20-875. Í meðfylgjandi töflu má sjá stigahæstu gimbrarnar sýslunnar.
Það var mikið af góðum hrútsefnum og gimbrum sem dæmd voru í haust í Austur-Skaftafellssýslu og verður spennandi að sjá hvernig þau munu reynast í ræktunarstarfinu á komandi árum.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins