Unglingalandsmót UMFÍ

0
1725
Keppendur USÚ í skrúðgöngu við setningu landsmótsins. Mynd: USÚ

Það fór sennilega framhjá fæstum að Unglingalandsmót UMFÍ fór fram hér á Höfn um verslunarmannahelgina. Um það bil þúsund keppendur tóku þátt og má reikna með að um 4-5 þúsund manns hafi verið í bænum vegna mótsins. Keppt var í hinum ýmsu greinum og alls voru 21 grein í boði. Metþátttaka var í greinum á borð við strandblak, strandhandbolta, bogfimi og kökuskreytingar. Einnig var góð þátttaka í skák, motocrossi, upplestri, stafsetningu og pílukasti sem var ný grein á mótinu. Má því segja að svokallaðar jaðargreinar og greinar sem ekki eru æfðar að staðaldri séu að verða vinsæll kostur á mótinu þar sem lagt er upp með að gleði og skemmtun séu við völd. Ásóknin í strandblak og strandhandbolta var svo mikil að bæta þurfti þriðja vellinum við á miðvikudeginum fyrir mót svo hægt væri að koma öllum liðum fyrir og spila gott mót. 104 keppendur kepptu fyrir hönd USÚ í margvíslegum greinum. Þeir voru allir USÚ til sóma og það var frábært að sjá að flestir virtust skemmta sér konunglega. Nóg var af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna yfir daginn og landsþekkt tónlistarfólk hélt svo uppi stuðinu á kvöldin.
Mótið var sett á föstudags­kvöldinu með setningarathöfn á Sindravöllum þar sem forseti Íslands og frú voru viðstödd. Lúðrasveit Hornafjarðar lék nokkur lög, formaður UMFÍ setti mótið, forseti Íslands flutti ávarp, Dagmar Lilja Óskarsdóttir söng Ísland er land þitt við undirspil lúðrasveitar, formaður USÚ dró hátíðarfána UMFÍ að húni og fulltrúi keppenda, Karen Hulda Finnsdóttir, sagði nokkur orð. Hefð er fyrir því að á setningu Unglingalandsmóta gangi þátttakendur á mótinu inn á völlinn áður en mótið er sett. Þá ganga fánaberar fremstir sem að þessu sinnu voru ungir hornfirskir íþróttaiðkendur sem flestir áttu það sameiginlegt að hafa fengið hvatningarverðlaun USÚ. Þá er einnig hefð fyrir því að mótseldurinn sé tendraður og voru það börn sem hafa verið dugleg við að mæta á Unglingalandsmót með fjölskyldum sínum undanfarin ár, sem hlupu með kyndilinn og tendruðu eldinn. Sú nýbreytni var einnig að kynnir mótssetningarinnar var keppandi á mótinu en það var hún Anna Lára Grétarsdóttir.
Undirbúningur Unglinga­landsmóts gerist ekki á einni nóttu og hafa mótshaldarar þ.e. Ungmennasambandið Úlfljótur, Sveitarfélagið Hornafjörður og Ungmennafélag Íslands unnið að því allt síðasta ár. En hversu góður sem undirbúningurinn er, væri ekki hægt að koma honum í framkvæmd nema með allri þeirri ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar vinna. Það eru þeir sem gera það að verkum að hægt er að halda svona mót. Það þarf t.d. um það bil 80 sjálfboðaliða bara á frjálsíþróttavöllinn. Í hverri grein þarf fólk til að sjá til þess að allt gangi eins og það á að ganga.

Strandblakið var mjög vinsælt. Mynd: UMFÍ

En það er ekki bara í keppnisgreinunum þar sem þörfin fyrir sjálfboðaliða er, sjoppuvaktir, klósettvaktir, gæsla, móttaka, tjaldsvæði, eldhús og fleiri og fleiri störf þarf að vinna svo allt sé með besta móti. Í litlu samfélagi eins og okkar skiptir hver hönd gríðarlega miklu máli og sannaðist það svo sannarlega um helgina hversu öfluga sjálfboðaliða við eigum í sveitarfélaginu. Það er ekki hægt að þakka þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt nógu oft fyrir frábær störf. Einnig á Björgunarfélag Hornafjarðar miklar þakkir skildar fyrir sinn þátt í mótinu en þau stýrðu gæslunni og sáu til þess að allir væru öruggir.
Mótinu var svo slitið á sunnudagskvöldinu af formanni UMFÍ. Formaður USÚ hélt stutt ávarp og gjaldkeri USÚ dró hátíðarfána UMFÍ niður. Hann verður svo sendur til Héraðssambandsins Skarphéðins en mótið 2020 verður haldið á Selfossi. Vaka Sif Tjörvadóttir, keppandi frá USÚ fékk sérstök heiðursverðlaun fyrir að hafa komið mótherja sínum í hjólreiðakeppni til aðstoðar. Sá hafði þurft að stoppa vegna öndunarörðugleika. Hún hringdi í 112 og beið með honum þar til frekari hjálp barst. Björgunarfélag Hornafjaðar bauð upp á glæsilega flugeldasýningu eftir mótsslitin og svo var dansað inn í nóttina.
Mótið þótti takast afar vel, bæði framkvæmd þess og aðstaðan góð. Okkar allra stærsti kostur hér á Höfn er aðgengið og nálægðin milli keppnis- og tjaldsvæða. Þetta var sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem allir skemmtu sér á heilbrigðan hátt saman.
Takk fyrir frábært mót.

Stjórn USÚ


Hér má sjá helstu úrslit hjá keppendum frá USÚ.
Ekki alveg víst að þetta sé tæmandi listi af verðlaunasætum

Bogfimi
Stefán Logi Hermannsson, 11-14 ára opinn flokkur 72 stig. 2. sæti.

Fimleikalíf
Vaka Sif Tjörvadóttir var í blandaða liðinu Sykurpúðarnir, sem lenti í 2. sæti.
ORAbaunirnar, Daníel Haukur Bjarnason, Kári Hjaltason og Lilja Rós Ragnarsdóttir lentu í 3. sæti.

Fimleikar (stökkfimi)
Í 11-12 ára flokki lentu Yum Yum núðlur, Daníel Haukur Bjarnason, Kári Hjaltason, Lilja Rós Ragnarsdóttir, Vaka Sif Tjörvadóttir og Guðlaug Gísladóttir, í 2. sæti í stökkfimi.
Í 13-14 ára flokki lentu Big Chungs, Nína Ingibjörg Einarsdóttir, Róbert Þór Ævarsson, Ingólfur Vigfússon, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Friðrik Björn Friðriksson og Elín Ása Hjálmarsdóttir, í 3. sæti í stökkfimi.

Frisbígolf
Anna Lára Grétarsdóttir, 11-14 ára stúlkur, 31 köst, 1. sæti.
Sara Kristín Kristjánsdóttir, 15-18 ára stúlkur, 32 köst, 2. sæti.

Frjálsar íþróttir
100 m hlaup pilta 13 ára, Björn Ívar Vilhjálmsson, 3. sæti 14,52 sek
Kúluvarp pilta 13 ára, Björn Ívar Vilhjálmsson, 3. Sæti 8,23 m
100 m hlaup pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 3. sæti 13,27 sek
800 m hlaup pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 2. sæti 2:29,93 mín
Langstökk pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 2. sæti 5,29 m, persónulegt met
Þrístökk pilta 15 ára, Tómas Nói Hauksson, 4. sæti, 11,14 m USÚ met í 15 ára flokki
Spjótkast stúlkna 11 ára, Lilja Rós Ragnarsdóttir, 2. sæti 14,08 m
600 m hlaup stúlkna 14 ára, Anna Lára Grétarsdóttir, 2. sæti 1:55,07 mín
800 m hlaup stúlkna 15 ára, Hekla Karen Hermannsdóttir, 1. sæti 2:58,71 mín
800 m hlaup stúlkna 15 ára, Selma Ýr Ívarsdóttir, 3. sæti 3:09,13 mín
80 m grindahlaup stúlkna 15 ára, Selma Ýr Ívarsdóttir, 14,54 sek
4×100 m boðhlaup stúlkna 15 ára, Sveit USÚ, Selma Ýr Ívarsdóttir, Hekla Karen Hermannsdóttir, Anna Lára Grétarsdóttir og Siggerður Egla Hjaltadóttir, 1. sæti 59,89 sek
800 m hlaup stúlkna 16-17 ára, Arna Ósk Arnarsdóttir, 1. sæti 2:46,63 mín
Kúluvarp stúlkna 18 ára, Nanna Guðný Karlsdóttir, 1. sæti 8,50 m
Spjótkast stúlkna 18 ára, Nanna Guðný Karlsdóttir, 3. sæti 22,40 m

Glíma
Drengir 11-12 ára, Sverrir Sigurðsson, 2. sæti, Smári Óliver Guðjónsson, 3. sæti og Kacper Ksepko, 4. sæti.
Drengir 13-14 ára, Almar Páll Lárusson, 1. sæti.

Skotfimi
Stefanía Björg Olsen, 3. sæti

Stafsetning
13-14 ára, Anna Lára Grétarsdóttir, 1. sæti.
15-18 ára, Ingunn Ósk Grétarsdóttir, 2-4. sæti

Sund
Magni Snær Imsland Grétarsson
1. sæti 13-14 ára piltar 100 m bringusund
1. sæti 13-14 ára piltar 50 m baksund
1. sæti 13-14 ára piltar 100 m skriðsund
1. sæti 13-14 ára piltar 100 m fjórsund

Heiðdís Elva Stefánsdóttir
3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m bringusund
3. sæti 13-14 ára stúlkur 50 m baksund
3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m skriðsund
3. sæti 13-14 ára stúlkur 50 m flugsund
3. sæti 13-14 ára stúlkur 100 m fjórsund

Anton Kristberg Sigurbjörnsson
3. sæti 11-12 ára piltar 50 m baksund


Keppendur frá USÚ voru í fjölmörgum liðum í knattspyrnum, körfuknattleik, strandblaki og strandhandbolta, ýmist í sér liðum eða blönduðum liðum. Í öllum þessum greinum átti USÚ einhverja í verðlaunasæti, en of langt mál væri að telja upp alla þá keppendur sem í þeim liðum voru. Hægt er að sjá öll úrslit og lokastöðu á www.ulm.is. Þar má einnig sjá önnur úrslit á mótinu, en þegar þetta er ritað á eftir að setja inn úrslit í kökuskreytingum og motocross.