Ungir Hornfirðingar

0
1001

Eins og allir vita, þá eru framundan sveitarstjórnarkosningar og snúast þær um að taka afstöðu til málefna næstu fjögurra ára, málefna framtíðarinnar í samfélaginu okkar. Mér finnst mjög mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt í þeim ákvörðunum.
Ungt fólk vill að sér geti liðið eins og það sé hluti af samfélaginu. Það vill fá vinnu, mannsæmandi laun og eigið húsnæði. Ef við hugsum ekki um unga fólkið okkar munum við missa það frá okkur. Mikilvægt er að allir taki höndum saman og stuðli að uppbyggingu samfélags þar sem allir aldurshópar geta þrifist.
Ungmennaráð Hornafjarðar er eins konar grundvöllur þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu og fái tækifæri til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra.
Öflugt starf ungmennaráðs eykur bæði ungmennalýðræði og íbúalýðræði. Við viljum meiri samvinnu við unglingana og gefa ungu fólki farveg til að segja það sem þau vilja og koma með sínar hugmyndir.
Við munum sjá til þess að fulltrúar sveitarstjórnar fundi reglulega með ungmennaráði þannig að rödd og áherslur ungmenna komist inn í stefnumörkun sveitarstjórnar. Einnig að virkja betur tengingu ungmennaráðs við nemendaráð grunnskólans og stjórn nemendafélags framhaldsskólans.
Undanfarin ár hefur umræða um geðheilbrigðismál opnast heilmikið en betur má ef duga skal. Við þurfum að vera vakandi yfir andlegri líðan íbúa, stórauka aðgengi að sálfræði- og geðheilbrigðissþjónustu fyrir alla aldurshópa.
Þeir sem bjóða sig fram í sveitarstjórnakosningum eiga flestir sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Við viljum öll byggja upp gott samfélag. Ákvarðanir sem eru teknar í dag hafa í rauninni meiri áhrif á ungt fólk og komandi kynslóðir sem munu seinna erfa landið.
Þitt atkvæði skiptir miklu máli!

Nejra Mesetovic
8. sæti á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra.