Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu

0
2105
Stjórn Umhverfissamtakanna: Kristín Hermannsdóttir, Jóhann Helgi Stefánsson, Steinunn Hödd Harðardóttir, Guðlaug Úlfarsdóttir og Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir. Varamenn eru Helga Árnadóttir, Sæmundur Helgason og Kristbjörg Sigurðardóttir.

Þann 22. nóvember síðastliðin voru stofnuð Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu. Tilgangur samtakanna er að vera sameiginlegur vettvangur áhugasamra einstaklinga um umhverfisvænan lífstíl, minni neyslu og sóun, endurnýtingu, og nýsköpun. Samtökin hyggjast standa fyrir vitundarvakningu meðal almennings, jafningjafræðslu og viðburðum tengdum umhverfismálum í sveitarfélaginu.
Þrátt fyrir tilfærslu á tímasetningu og frekar slæmt veður var góð mæting. Um 30 manns komu og hlýddu á fyrirlestra og sátu stofnfund í kjölfarið.
Tómas Knútsson frá Bláa hernum sagði frá tilurð Bláa hersins og frá verkefnum sem hann hefur sett á laggirnar eða tekið þátt í að undanförnu. Tómas er ötull við að þrífa strendur landsins og áður fyrr kafaði hann eftir rusli á hafsbotni við Ísland. Tómas veitti félaginu 25.000 krónur peningastyrk úr dósasjóði sínum sem stofnstyrk.
Rósa Björk Halldórsdóttir yfirlandvörður Vatnajökulsþjóðgarðs á Breiðamerkursandi hélt áhugavert erindi um umhverfisvernd vs. náttúruvernd. Hún sýndi myndir, m.a. frá Balí þar sem hún hefur unnið hörðum höndum að því að aðstoða heimamenn við að koma ruslamálum í betra horf. Á Balí hirðir enginn um rusl íbúa og fyrirtækja og því öllu hent í næsta skóg, jafnvel innan þjóðgarðs. Rósa ræddi um eyðingu regnskóga til þess að fá ræktunarland til að rækta pálmatré. Úr pálmatrjám er framleidd pálmaolía, sem m.a. er notuð í nánast hvert einasta sætabrauð á Íslandi. Eyðing regskóganna eyðir vistkerfum dýra og plantna sem hefur gífurleg umhverfisáhrif langt út fyrir hitabeltið.
Steinunn Hödd Harðardóttir sérfræðingur Vatnajökulsþjóðgarðs fræddi okkur um strandhreinsunina sem farið var í á Degi íslenskrar náttúru, 16. september s.l. Þá gengu sjálfboðaliðar 11 km strandlengju frá Jökulsá á Breiðamerkursandi að Reynivallaós og týndu 13 tonn af rusli, járni, plastkúlum, flöskum o.fl. Næsta strandhreinsun verður laugardaginn 5. maí 2018 og bendum við áhugasömum á að taka daginn frá.
Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir verkefnastjóri í Nýheimum sagði frá verkefninu Plastpokalaust Suðurland sem hún vinnur að fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Fyrir stuttu kom út skýrsla hjá SASS sem ber sama heiti og verkefnið og fjallar um plast og plastpoka.. Guðrún sagði frá Pokastöðvunum, en hún vinnur m.a. að því að aðstoða Sunnlendinga við að koma upp Pokastöðvum líkt og hér á Höfn. Verkefnið dreifist smátt og smátt um landið. Þess má geta að nú eru komnar upp pokastöðvar á um 15-20 stöðum vítt og breytt um landið.

Umhverfissamtök A-Skaft. eru opin öllum þeim sem hafa áhuga á umhverfisvænum lífsstíl. Hægt er að finna okkur á Facebook undir Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu eða hafa samband við samtökin á netfangið, umhverfisaskaft@gmail.com