Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu

0
891
Rusl sem safnað var saman á Alheims hreinsunardeginum á Höfn

Umhverfissamtök Austur Skaftafellssýslu voru stofnuð 22. nóvember 2017. Markmið samtakanna er að stuðla að umhverfisvænni lífsstíl meðal íbúa á svæðinu. Hluti af því felst í að hvetja fólk til að huga að nærumhverfi og ganga vel um það. Þessi hvatning hefur að hluta til falist í því að vekja athygli bæjarbúa á rusli sem finnst víða innan sveitarfélagsins og hafa samtökin bæði staðið fyrir strandhreinsunum og tölti með tilgangi þar sem gengið er um bæinn og rusli safnað saman. Samtökin hafa tekið virkan þátt í Hafnarhittingum þar sem gestir hafa fengið fræðslu um umhverfismál og fengið tækifæri á að gera sjálft umhverfisvænt þvottaefni.
Árið 2018 stóðu Umhverfissamtökin fyrir ýmsum viðburðum. Þrisvar sinnum var tölt með tilgangi þar sem meðlimir samtakanna og íbúar gengu saman um bæinn og tíndu rusl af götum og úr runnum bæjarins. Um vorið var haldinn kynningarfundur um félagslandbúnað og í desember buðu svo samtökin upp á námskeið í vistvænu jólaföndri með Eyrúnu Axels. Einnig tóku samtökin þátt í nokkrum sameiginlegum viðburðum á árinu, þremur Hafnarhittingum og Frístundardegi í Nýheimum.
Þann 5. maí 2018 tókum við þátt í Norræna strandhreinsunardeginum og töltum með tilgangi um Óslandið og fjörurnar í kring. Um 30 sjálfboðaliðar mættu til leiks og létu rigningu og rok ekki stoppa sig í ruslatínslunni. Í lok hreinsuninnar voru grillaðar pylsur fyrir þátttakendur í boði Nettó.
Um miðjan september héldum við upp á Alheimshreinsunardaginn með stórum tölt með tilgangi viðburði á Höfn. Hátt í 40 sjálfboðaliðar sem gengu um nær allar götur bæjarins og tíndu rusl, en af nægu var að taka. Að töltinu loknu voru grillaðir hamborgarar í boði sveitarfélagsins.
Við viljum þakka öllum sem tekið hafa þátt í viðburðum okkar fyrir þátttökuna, sem og þeim sem styrktu viðburði samtakanna.
Að lokum viljum við svo minna á strandhreinsun á Suðurfjörum laugardaginn 4. maí n.k. Þá göngum við Suðurfjörurnar, frá Hólmsá og austur eftir, alls um 12 km. Við viljum hvetja alla þá sem hafa tök á því að aðstoða okkur, hvort sem það er að koma og tína rusl eða koma með stærri tæki, traktora eða kerrur, til þess að hafa samband við okkur.

Hægt er að hafa samband við okkur í gegnum Facebook síðu samtakanna eða á umhverfisaskaft@gmail.com