Umhverfismál hjá Sveitarfélaginu Hornafirði

0
840

Þessi málaflokkur hefur verið í brennidepli allt síðasta ár. Sveitarfélagið fór í ákveðna vegferð sumarið 2017 með útboði á sorphirðu. Markmið útboðsins var að bæta þjónustu við íbúa með það að markmiði að draga úr urðun á sorpi og lækka kostnað. Tilboði var tekið hjá Íslenska Gámafélaginu (ÍG) sem bauð lægst og farin var sú leið að taka upp tveggja tunnu fyrirkomulag þar sem lífrænt bættist við sem flokkunarmöguleiki ofan í almennu sorptunnunni. Nú fer allt lífrænt sorp frá heimilum til jarðgerðar á Reyðarfirði og moltan kemur til baka til Hornafjarðar og er nú haugur út við salthaugana á Ægisíðu. Eftir stóðu fyrirtæki og stofnanir sem færðust ekki yfir í sama fyrirkomulag. Nú tveimur árum seinna erum við enn að glíma við áskoranir í sorpmálum, okkur hefur gengið hægt að draga úr urðun, hún hefur reyndar aukist síðustu tvö árin samanber Grænt bókhald urðunarstaðarins í Lóni. Samhliða hefur kostnaður vegna sorpmála verið að hækka og meðal annars vegna vísitöluhækkunar á samningi ÍG án þess að sú þróun hafi verið tengd gjaldskrá sveitarfélagsins. Það er alveg ljóst að sveitarfélagið þarf að gera betur í sorpmálum til að ná árangri í því að draga úr urðun og þar með úr kolefnislosun út í andrúmsloftið. Þjónustan í þéttbýlinu er mjög góð samanborið við marga aðra staði á landinu og þjónustan við íbúa í dreifbýli er sambærileg utan þess að þangað er ekki sótt lífrænt sorp. Sveitarfélagið er með gámastöð í þéttbýlinu en er með gáma fyrir brotajárn og timbur í dreifbýlinu að undanskildum Öræfunum. Umgengni við þessa gáma er ekki nægilega góð. Það er því til mikils að vinna. Unnin hafa verið umhverfismarkmið fyrir urðunarstaðinn í Lóni en sveitarfélagið hefur heimild til að urða allt að 3.000 tonn af almennum úrgangi. Síðustu þrjú ár hefur urðað magn verið yfir þeim heimildum. Urðunarstaðurinn í Lóni er takmörkuð auðlind ásamt því að stefna stjórnvalda er að urða helst ekki neitt. Í fyrrnefndum umhverfismarkmiðum er stefnt að því að hlutfall heimilisúrgangs sem er endurunninn verði 50% árið 2020, en árið 2018 var hlutfallið 26% hjá okkur. Það er ljóst að stíga þarf ákveðin skref til þess að árangur náist. Á síðasta ári sýndi sundurliðun á uppruna úrgangs að hlutur fyrirtækja er mjög umfangsmikill eða um 64% á meðan úrgangur frá heimilum var um fjórðungur. Tækifærin eru því til staðar.

Nokkrar leiðir eru færar í því að minnka urðun á sorpi:

  1. Draga úr neyslu – stærsta áskorunin!
  2. Með aukinni gjaldtöku.
  3. Halda uppi góðri þjónustu sem auðveldar íbúum að flokka.
  4. Fræðsla til almennings.
  5. Skylda íbúa og fyrirtæki til endurvinnslu.

Í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu var samþykkt hækkun á gjaldskrá sorpmála með það að markmiði að draga úr urðun og til að standast lög sem kveða á um að sorpmálin standi fjárhagslega undir sér. Í dag er það langt frá því að vera svo og er gjaldskrá sorphirðu í Sveitarfélaginu Hornafirði með því lægsta sem gerist á landinu.
Það eru jákvæð teikn á lofti. Tölur það sem af er ári 2019 sýna að ef fer sem horfir þá munum við ná að koma magni sorps sem fer til urðunar undir 3.000 tonnin og það stefnir í að hlutfall endurvinnanlegs úrgangs verði í kringum 35% í lok árs. Við krossum fingur um að þróunin haldi áfram í þessa átt.
Sveitarfélagið hefur notað allt árið í að rýna hvernig best er að þjónusta sorpmálin. Til skoðunar er að fjarlægja járn- og timburgáma úr dreifbýlinu, taka þátt í kostnaði lögbýla við að fá til sín gám fyrir timbur og járn, skipuleggja hreinsiviku í apríl og sækja spilliefni 3 svar á ári, breyta opnunartíma í ruslaportinu þannig að það verði opið 5 daga í viku í stað 3 daga o.fl. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun sem mun liggja fyrir um áramót og verður fyrirkomulagið kynnt betur fyrir íbúum þegar það liggur fyrir.

Mikilvægustu skilaboðin til allra íbúa eru í grunninn að við sem íbúar í þessu landi verðum að draga úr neyslu, endurnýta eins og hægt er og ganga vel um jörðina okkar!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri