Um hákarlinn, er nauðsynlegt að berja hann?

0
884

Ég rakst nýlega á grein á vef Al Jazeera um hákarlaveiðar í Ómanssundi. Blaðamaður, sem er einnig kafari, var að taka myndir neðansjávar nálægt fiskiþorpinu Kumzar – myndin fylgir hér með.
Veitt er á opnum báti, með hákarlagildru sem er þyngd til að sökkva niður á botn. Krókarnir eru síðan beittir með lifandi fiski og gildran skilin eftir í 1-2 sólarhringa.
Þegar fiskimaður kemur aftur og finnur hákarlinn, er hann dreginn upp á yfirborðið, rotaður og þá landað. Veiðarnar eru gömul hefð á svæðinu, faðir veiðimannsins sem blaðamaðurinn fékk að fylgja stundaði sömu veiðar.
Algengasta veiðin er flóaháfur, hvítuggi, sleggjuhaus og jafnvel hvalhákarl. Hákarlaveiðar eru ekki ólöglegar í Oman, en þó eru reglur um að dýrið þurfi að selja í heilu lagi – reglur sem fyrst og fremst eru til að sporna við veiðum þarsem einungis uggarnir eru hirtir og afgangurinn af dýrinu skilinn eftir. Árið 2008 gerðist Oman aðili að Samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, en á honum eru reyndar bæði sleggjuhaus og hvalhákarl. Það er enn í vinnslu hvernig yfirvöld ætla sér að stjórna veiðunum.
Fiskimenn fara með aflann sinn á markað í Khasab en þaðan er hann fluttur út til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Kjötið er verkað og fryst en uggarnir eru fluttir út. Þegar litið er á sölu á heimsvísu sýna tölur seinustu ára aukningu á verslun með hákarlakjöt, til Brasilíu og fleiri suður-Ameríku landa – en þetta er oft blekking því í raun og veru er kjötsalan leið til að fara í kringum bann á uggaveiði. Allt dýrið er flutt fram og til baka um heiminn en raunveruleg seld vara er aldrei neitt annað en uggarnir. Eitthvað af kjötinu lendir í hakki eða á ehsk uppruna-gráu svæði einsog í gervikrabba og surimi – smærri háfar einsog deplaháfur eru vinsælir á borðum í USA, Ítalíu og Frakklandi – en þar getur spilað inn í að bann er við innflutningi á stærri háfiskum vegna kvikasilfurshættu.
Þrátt fyrir þetta og aukna vitund er reiknað að aðeins einn þriðji af heiminum hafi innleitt löggjöf til að stemma gegn drápi á háfiskum fyrir uggana eingöngu.
Meira en fjórðungur allra hákarlategunda er í útrýmingarhættu. Dýrin eru bráðnauðsynlegur hlekkur í lífríki sjávar og jarðar allrar – og nýlega er farið að telja stærri sjávardýr með því lífríki sem bindur í sig koltvísýring og sem er þá sem aldrei fyr bráðnauðsynleg viðspyrna við hnattrænni hlýnun.
Dæmið sem hér er tekið er af smábátaútgerð, nokkuð sem eitt og sér er ekki vandamálið – ekki frekar en hákarlaveiði á Íslandi áðuren Færeyingar, Norðmenn, Danir og fleiri settu hér á fót markaðsútgerð og gerðu út á stærri skipum.
Þó var hákarlaveiðin hér ekki endilega sjálfbær þótt Íslendingunum grönduðu ekki mörgum skepnum í samanburði við þann sjávarútveg sem síðar varð. Um leið og lýsið varð aðalatriðið var ekki endilega alltaf verið að hirða kjötið. Oscar Clausen lýsti veiðiaðferð sem dýrið var ekki einusinni tekið upp í bát heldur rist upp í sjónum og aðeins hirt innan úr því.
Samt er þessi munur á markaðsútgerð á risaskipum andspænis smábátaveiðum nokkuð sem vert er að skoða núna þegar við fáum í fangið þetta tækifæri til að endurskoða svo margt í mannanna verki.

Gísli Magnússon
bókavörður