TÓNLISTARVEISLA Á HÖFN UM SJÓMANNADAGSHELGINA

0
311

Hornfirðingar eiga von á mikilli tónlistarveislu um Sjómannadagshelgina þar sem Grétar Örvarsson hefur stefnt fjölda landsþekktra tónlistarmanna til Hafnar þá helgi. Föstudagskvöldið 2. júní verða tónleikarnir Sunnanvindur í Hafnarkirkju þar sem Grétar mun flytja eftirlætislög föður síns, Hornfirðingsins Örvars Kristjánssonar harmónikkuleikara, ásamt Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur og Ragnari Eymundssyni. Ásta Soffía er einn fremsti harmónikkuleikari landsins og hefur leikið með Grétari víða um land á undanförnum mánuðum. Tónleikarnir Sunnanvindur hafa heldur betur slegið í gegn og verið fluttir fjórum sinnum í Salnum í Kópavogi og tvisvar í Hofi Akureyri, alltaf fyrir fullu húsi. “Ég flétta saman eftirlætislögum pabba og mínum í bland við skemmtilegar sögur og hlakka alltaf mikið til að koma austur og hitta Hornfirðinga”, sagði Grétar og bætti við að von væri á óvæntum gestum á tónleikana. Laugardagskvöldið 3. júní spilar Stjórnin með Siggu og Grétari ásamt sérstökum gestasöngvara, Stefáni Hilmarssyni. Þau halda uppi fjörinu á dansleik í íþróttahúsinu fram á nótt. Á borðhaldinu munu þau einnig flytja lagasyrpur til að hita upp fyrir ballið. Sunnudaginn 4. júní leikur Ásta Soffía í Sjómannadagsmessu í Hafnarkirkju. Síðar sama dag munu þau Grétar skemmta heimilisfólkinu á Skjólgarði. Það er því ljóst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi á Höfn um Sjómannadagshelgina!