„Þú Hornafjörður“

0
1965

„Þú Hornafjörður hulinn tignar feldi.
Með hafið blátt við ystu sjónarrönd
Og fjalla hring er fegrast sólar eldi.
Hin frjóvutún og víðu beitilönd.
Á gulli sjávar gæðir þínum börnum
Og gleði veitir inn í þeirra hús.
Við söngvanið frá svanahóp á tjörnum,
Er sérhver þegn til æðstu dáða fús.“

Mér finnst við hæfi að hefja þessa grein með texta Aðalsteins Aðalsteinssonar við lag afa míns Eyjólfs Stefánssonar „þú Hornafjörður.“ Þessi texti tekur vel saman þau gæði sem Sveitarfélagið Hornafjörður hefur að færa.
Svo ég kynni mig aðeins þá heiti ég Jón Áki Bjarnason, sonur Elísabetar Magneu Krístínar Eyjólfsdóttur frá Höfn og Bjarna Jónssonar frá Akranesi. Ég er giftur Joannu Wójtowicz og eigum við 3 indæl börn. Ég er alinn upp á Dalvík, lærður fiskiðnaðarmaður og hef starfað við sjávarútveginn frá blautu barnsbeini. Ég fluttist á Höfn haustið 2013 og tók að mér núverandi starf sem framkvæmdastjóri í niðursuðuverksmiðju staðarins Ajtel Iceland ehf. Ég er meðlimur í klúbbum Kiwanis og Lions og læt mér annt um málefni sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Hornafjörður er vel rekið sveitarfélag og er það mér heiður að fá tækifæri til að koma að áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu á komandi kjörtímabili.
Ég vil stuðla að betri samgöngum og stuðla að styrkingu og fjölgun atvinnuvega í sveitarfélaginu.
Ég vil sjá ný hjúkrunar- og sjúkrarými rísa á kjörtímabilinu.
Ég vil sjá nýtt íþróttahús rísa á næsta kjörtímabili.
Að lokum þá vil ég sjá allt það góða starf sem unnið hefur verið í mennta- og félagsmálum halda áfram að vaxa og dafna.
Jákvæðni skilar árangri.

Kveðja Jón Áki Bjarnason
6. sæti hjá Sjálfstæðismönnum