Þorvaldur þusar 26.október

0
201

Þannig er það nú

Nú um stundir er mikið rætt um hvers kyns samráð. Ég er ekki alveg með á nótunum í þessari umræðu. Ég veit ekki betur en samráð hafi viðgengist um áraraðir í okkar annars ágæta samfélagi. Hver man ekki eftir samráði olíufélaganna eða samráði fyrirtækja á dagvörumarkaði svo nefnd séu dæmi. Því var haldið fram að megintilgangur með öllu þessu væri í raun ný útgáfa af samvinnu þar sem megin tilgangurinn væri að vernda og bæta hag okkar neytenda. Datt einhverjum nokkuð annað í hug? Þetta fyrirkomulag hentar ýmsum vel t.d. sama verð á eldsneyti kemur í veg fyrir að maður fyllist valkvíða vegna þess að verðið er misjafnt eftir olíufélögum. Ekki væri það í þágu okkar neytenda ef t.d. kílóið af sykri væri selt á ólíku verði í hinum ýmsu verslunum, sem þýddi að við neytendur værum á stöðugum þvælingi eftir lægsta verðinu. Töluglöggir hafa bent á að á landsbyggðinni sé aðeins eitt verð þ.e.a.s. hæsta verðið.
Svo ætlaði allt um koll að keyra á dögunum þegar skipafélögin urðu uppvís að samráði. Eins og það sé nú að gerast allt í einu! Að vísu hafði eitt félagið séð hag sinn í að viðurkenna samráð, en viti menn þá kom það næsta og hótaði málsókn og leiðindum vegna þess að þar var farið með rangt mál. Heyrst hefur að eigandi vel þekkst skipafélags hyggist nú breyta nafni félagsins í Skipafélagið Samráð.

Kveðja Þorvaldur