Þorvaldur þusar 12.október 2023

0
186

Húmar að og hausta fer

Nú um stundir eru viðsjárverðir tímar.
Verðbólgan og vextir í hæstu hæðum. Ríkisstjórnin með fjármálaráðherra í fararbroddi fylkingar stefnir að því að ganga endalega frá öryrkjum og þeim sem verst eru settir í samfélaginu. Þannig hyggst ríkisstjórnin ná fram umtalsverði hagræðingu í ríkisrekstrinum. Framlög til Tryggingarstofunnar munu lækka verulega. Með þessu móti getur nefndur ráðherra í hagræðingarskyni flutt verulegar fjárhæðir til þeirra sem alls ekki þurfa á auknum tekjum eða styrkjum að halda.

Einnig er það athyglisvert hversu mörg stjörnupör í Hollywood og meðal fræga fólksins eru að undirbúa skilnað. Þessi árátta virðist einnig hafa borist til Evrópu líkt og pestin forðum.
Ég er því mjög uggandi um minn hag. Gæti það hugsast að konan mín gæti smitast af þessari skilnaðar pest? Ég veit af reynslu að hún er heilsuhraust og fær sjaldan pestir. Engu að síður ligg ég andvaka nætur langt og sé fyrir mér að konan komi einn daginn og krefjist skilnaðar eftir að hafa lifað í ástríku hjónabandi í rúmlega hálfa öld. Það er reyndar ofvaxið mínum skilningi því að mínu mati hefur konan lifað í ástríku hjónabandi þar sem eiginmaðurinn hefur stjanað við hana áratugum saman. Eitt er víst að það getur ekki verið tilgangur hennar að sækjast eftir peningum því þá hef ég aldrei átt og þá sjaldan að ég hef eignast aura hef ég eytt þeim í tóma vitleysu.
En einhver ástæða hlýtur að liggja að baki. Ég er með nagandi samviskubit yfir einhverju sem ég veit ekki hvað er og ég veit heldur ekki hvort ég yfir höfuð ætti að vera með samviskubit.
Reyndar hafa læknar spáð því að með haustinu megi vænta þrefaldrar pestarbylgju.
Það er því rétt fyrir allan almenning að vera sérstaklega á verði gagnvart komandi pestum.
Ég hef því brugðið á það ráð að vera óvenju hjálpsamur og blíður. Konan spurði mig um daginn hvort ég væri lasinn. Ekki get ég skilið hvers vegna henni datt það í hug.
Til öryggis er rétt að hafa eftirfarandi í huga.
Í stríði við pestina vegni oss vel
verndi oss Drottinn og Páfinn.
Svo bannsettri veirunni veri´ ekki um sel
og vinalaus fjúki út í bláinn.

Kveðja Þorvaldur