Þorvaldur þusar 30.nóvember

0
209

Samgöngur

Í þessum pistli ætla ég að þusa svolítið um samgöngur í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Lengi var það þannig að sveitarfélagið gat státað af ótrúlegum fjölda af einbreiðum brúm. Í seinni tíð hefur þessum brúm farið fækkandi, þó eru nokkrar enn eftir. Það læðist að mér sú hugsun að helsti dragbítur á framfarir í vegamálum í sveitarfélaginu hafi verið og sé jafnvel enn ákveðinn hluti íbúanna. Gæti
hugsanlega verið að í þessum málaflokki ríkti sami eða svipaður hugsunarháttur og þegar rætt er um þéttingu byggðar? Margir eru á móti þéttingu byggðar af því að það snertir þá með einum eða öðrum hætti. Sama má segja um breytingu á núverandi vegi gegnum sveitarfélagið. Þegar fram komu hugmyndir um að færa þjóðveginn í Öræfunum þá kom fram andstaða ákveðinna íbúa. Sama sjónarmið kom fram þegar rætt var um nýjan vega þannig að umferðin færi ekki í gegnum Nesin. Af hverju? Jú vegna þess að þá færðist umferðin frá verslunum og gististöðum og þar með mundi þessi rekstur missa spón úr aski sínum. Sama sjónarmið tafði framkvæmdir við nýjan vega og brú yfir Hornafjarðarfljót. Báðar þessar tillögur hefðu haft styttingu í för með sér og stuðlað að betri samgöngum t.d. hefði einbreiðu brúnum í Öræfunum fækkað nokkuð við að færa veginn frá núverandi legu. Lagning nýs vegar um Hornafjarðarfljót mun hafa margþætt áhrif t.d. á skólaakstur. Ljóst er að breytingin stuðlar að því að það gæti verið vænlegur kostur að byggja á Mýrunum og stunda vinnu í þéttbýlinu. Væri það ekki góður kostur fyrir þá sem sækjast eftir flottu útsýni, ró og friði! Er það ef til vill rétt sem sagt hefur verið að fyrst hugsi maður um það sem kemur mér best. Mér er nokk sama hvað heildina varðar! Slagorð þusarans er: „Greiðar samgöngur stuðla að betra mannlífi.“

Með vega kveðju Þorvaldur þusari