Þorvaldur þusar 23.nóvember

0
200

Skipulagsmál Hluti 3.

Í tengslum við þéttingu byggðar og næsta byggingarsvæði er mikilvægt að taka frá svæði fyrir íbúðir fyrir aldraða. Það svæði verður að vera með greiða tengingu við Ekru og Heilsugæslustöðina. Félagsmiðstöð eldri borgara er í Ekru og íbúarnir þurfa á ýmisskonar þjónustu að halda frá heilsugæslu- og félagsþjónustunni.
Mér sýnist að þar séu einkum tvö svæði. Annarsvegar svæðið fyrir innan Ekru eða „Hóteltúnið.“ Þessi svæði eiga það sameiginlegt að vera í göngufæri frá Ekru og Heilsugæslunni. Mér er ljóst að um þetta eru íbúar ekki sammála og því er mikilvægt að hefja þessa umræðu t.d. með því að stofna umræðuhóp íbúa um hvar sé heppilegast að gera ráð fyrir íbúðum fyrir eldri borgara. Ef mannfjöldaþróun er skoðuð er ljóst að á næstu fjórum til fimm árum fjölgar eldri borgurum ekki mjög hratt en eftir það rís kúrfan mjög hratt. Eins og fram er komið er líka mikilvægt að tekin verði heilstæð umræða um þéttingu byggðar. Næsta byggingarsvæði er fyrirhugað inn
undir gömlu mjólkurstöðinni.
Var það eina svæðið sem kom til greina? Fór fram opin umræða um þessa ákvörðun með þátttöku íbúa? Okkur er sagt að svæðið verði tilbúið í byrjun næsta árs. Vonandi standast þær áætlanir, en ég er því miður ekki bjartsýnn á að það standist. En sú vinna er í gangi, en því miður sýnist mér og reyndar fleirum að þessi vinna gangi afar hægt. Bætt er við mannskap í þessa skipulagsvinnu en það virðist ekki breyta miklu!
Nú læt ég staðar numið um skipulagsmál, þótt margt sé enn ósagt. Vona að þessir pistlar veki upp spurningar og umræðu. Jákvæð, opin gagnrýnin umræða er mikilvæg. Íbúar eiga rétt á að vera þátttakendur í þessum málum. Þetta eru lokaorð
þusarans um skipulagsmál að sinni.

                Með skipulags kveðju  

Þorvaldur þusari