Þorrinn var haldinn hátíðlegur í leikskólanum Sjónarhóli í síðustu viku. Börnin léku og unnu með þema út frá Þorranum, m.a. með því að mála myndir, búa til skrautlegar kindur, boðskort eða
Þorrakórónur. Einnig voru sungin lög, m.a. Þorraþrællinn og Þegar hnígur húm að Þorra. Elstu tvær deildirnar fóru í heimsókn á bókasafnið, Eyrún tók á móti börnunum og sýndi þeim gömul leikföng sem þau fengu að leika sér með og þau fengu einnig að skoða trog, ask og fleiri gamla muni. Alla vikuna fengu börnin að smakka Þorramat, eina tegund á dag með ávaxtabitanum og þau fengu góða kynningu á karla- og kvenna þjóðbúningum.
Vikan náði svo hámarki á föstudaginn þegar pöbbum og öfum var boðið í heimsókn til að halda upp á bóndadaginn, þeim var boðið upp á hákarl og kaffi. Það var mjög góð mæting og mikil gleði í húsinu. Í framhaldinu var svo haldið Þorrablót í sal
leikskólans þar sem var Þorralögin voru sungin, starfsfólk
sýndi brúðuleikrit um Nöllu og Nalla og hvernig þau buðu Þorrann
velkominn. Kynning var á íslenskum þjóðbúningi og í lokin var stiginn dans. Í hádeginu borðuðu börnin við langborð, boðið var upp á grjónagraut, hákarl, harðfisk og annan hefðbundinn Þorramat.
Það er skemmtilegur hluti leikskólastarfsins að vinna með ýmis
þemu yfir skólaárið, sem dæmi má nefna viku ljóss og skugga, umferðarviku, litaviku, dansviku, náttúruviku, læsisviku og ýmislegt fleira.
Starfsfólk leikskólans Sjónarhóls