Þolmörk og sjálfbær ferðaþjónusta

0
812
Ari Trausti Guðmundsson

Ferðaþjónustan er ekki sjálfbær sem atvinnugrein en við stefnum að sjálfbærni undir merkjum ábyrgrar ferðaþjónustu. Umhverfisáhrif hennar eru enn neikvæð á of mörgum stöðum, of mörg sveitarfélög og héruð eru ýmist of hart keyrð við að þjónusta ferðamenn eða að mestu afskipt, og loks er fjárhagslegum ávinningi misskipt í samfélögum víða um land. Margt telst ógert áður en markinu er náð og eru nokkur skref í þá átt mörkuð í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Við mat á áhrifum fleiri ferðmanna verður að miða við þolmörk á öllum þremur stigum sjálfbærni: Umhverfismörk, samfélagsmörk og efnahagsmörk. Þau ákvarðast með rannsóknum og könnunum og breytast í tíma.
Telja má almennan vilja í samfélaginu til þess að ein (og fremur óstöðug) atvinnugrein yfirtaki ekki of mikinn mannafla, fasteignir og rými eða vinnutíma. Líka er almennur vilji til þess að ferðaþjónusta sem auðlindanýting lúti svipuðum takmörkunum og vísindalegum nálgunum og til dæmis sjávarútvegur. Sérhvert samfélag, og einkum lítið samfélag í stóru landi, verður að viðurkenna að tímaháð vaxtarmörk ferðaþjónustu eru til og verða aðeins skilgreind af hálfu þessa sama samfélags. Um leið er verið að tryggja gæði ferðaþjónustu og sjá til þess að erlendir gestir upplifi land og þjóð á farsælan hátt.
Ýmsum aðferðum má beita til að stýra straumi ferðamanna og takmarka aðgengi að stöðum eða landsvæðum. Unnt er að nota auglýsingar og kynningar til að opna aðgengi að vannýttum stöðum og svæðum. Samtímis verður að hvetja þar til uppbyggingar innviða og afþreyingar. Önnur aðferð er að marka ítölu gesta per stund eða dag og stjórna aðgengi við innkomustað. Enn ein aðferðin er til dæmis að nýta mörkuð bílastæði sem meginleið að stað eða svæði. Loks er hægt að nota gistiaðstöðu og innviði vinsælla svæða til að takmarka aðgengi. Í heild verða þolmörk, sjálfbærninnar vegna, til þess að Ísland getur aðeins sinnt tilteknum fjölda ferðamanna árlega, á gefnu tímabili.
Að mínu frumkvæði samþykkti Alþingi í september 2017 beiðni um skýrslu, unna á vegum ráðuneytis ferðamála, um þolmörk og leiðir til aðgangsstýringar. Skýrslan kom út en samhliða var hafin vinna á vegum ráðherra ferðamála við að setja fram sjálfbærnivísa sem eru tilbúnir til notkunar. Enn fremur hefur verið unnið að heildstæðri ferðamálastefnu fyrir tilstilli stjórnvalda, í samvinnu við hagaðila, og áfangastaðaáætlanir á vegum markaðsstofa landshlutanna. Samtímis verður smám saman til rammi um þau opinberu gjöld sem þarf til að fjármagna hlutverk sveitarfélaga og ríkis í ferðþjónustunni. Með þessum skrefum vinum við okkur úr óreiðukenndu ástandi sem hófst með ofsahröðum vexti ferðaþjónustu og of máttlitlum viðbrögðum samfélagsins. Þar sýnir sig einn ávinningurinn af samstarfi ríkisstjórnarflokkanna undir forystu VG.

Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi