Þjónustan heim

0
68

Sveitarfélagið Hornafjörður í samstarfi við HSU hefur frá árinu 2019, samþætt heimaþjónustu og heimahjúkrun undir heitinu ,,Þjónustan heim”. Markmið þjónustunnar er aðstoða og hæfa notendur sem þurfa, aðstæðna sinna vegna, á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Áhersla er lögð á að efla notandann til sjálfshjálpar og sjálfræðis og gera honum kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður. Við framkvæmd og skipulagningu þjónustunnar er lögð áhersla á að sníða hana að þörfum notandans og virða sjálfsákvörðunarrétt hans.
Þjónustan heim felur í sér heimahjúkrun, félagslega heimaþjónustu (félagsleg liðveisla, frekari liðveisla og heimilisþrif), dagdvöl og félagsstarf fatlaðra, dagdvöl og félagsstarf aldraðra, matarþjónustu og akstursþjónustu.
Samstarfið milli heimahjúkrunar HSU-Höfn og Velferðarsviðs er öflugt og í stanslausri þróun en 13.-15. september síðastliðinn lögðu Sigríður Helga Axelsdóttir, forstöðumaður stuðnings- og virkniþjónustu og Kolbrún Rós Björgvinsdóttir, verkefnastjóri
heimahjúkrunar, land undir fót og kynntu sér samstarf annarra aðila.
Við heimsóttum HSU á Selfossi, skoðuðum velferðartækni og samþætta þjónustu Reykjavíkurborgar, fengum fræðslu um Þjónandi leiðsögn hjá Hafnarfjarðarbæ ásamt því að líta í Reykjanesbæ og skoða hvernig samþætt þjónusta gengur hjá þeim.
Markmið ferðarinnar var að kynna sér nýjustu þróun í velferðartækni, skoða matstæki sem sveitarfélögin nota til að meta umsækjendur inn í þjónustuna ásamt því að fræðast um hvernig samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu gengi annarsstaðar.
Eins og samstarfi okkar er háttað í dag eru reglulegir fundir á tveggja vikna fresti þar sem farið er yfir nýjar umsóknir og eldri endurmetnar. Markmiðið er að efla fólk til sjálfshjálpar, styðja við eigin getu og aðstoða þar sem þörf er á, undir því yfirmarkmiði að notendur geti verið sjálfstæðir og búið heima sem lengst við sem eðlilegastar aðstæður.
Eftir að mat hefur verið lagt á umfang stuðningsþarfar umsækjanda fara umsóknir í gegnum teymi matsnefndar sem í sitja einn fulltrúi frá heimahjúkrun og þrír fulltrúar frá stuðnings-og virkniþjónustu. Matsnefnd annaðhvort samþykkir eða hafnar umsókn og hefur samband við umsækjendur í kjölfarið og upplýsir þá um niðurstöðuna.
Eftir ferð okkar í önnur sveitarfélög sáum við að okkar samvinna gengur vel og erum við á réttri braut í að þjónusta notendur. Alltaf má þó gera betur og sjáum við spennandi tækifæri í frekari notkun á velferðartækni m.a. lyfjaskammtara, skjáheimsóknir og fjarvöktun sem felst í því að notendur mæli sig heima og hjúkrunarfræðingur fer reglulega yfir mælingar og kemur með tilmæli um breytingar ef þörf er á. Vegna stærðar sveitarfélagsins sjáum við fjölmarga kosti við að tæknivæða þjónustuna að einhverju leyti og koma þannig til móts við fleiri notendur.Einnig stefnum við á að taka upp sameiginlegt matstæki eins og önnur sveitarfélög hafa nú þegar gert og eru að nota með góðum árangri.

Með bestu kveðjum
Sigríður Helga Axelsdóttir
forstöðumaður stuðnings-og
virkniþjónustu.
Kolbrún Rós Björgvinsdóttir
verkefnastjóri heimahjúkrunar
HSU-Höfn