Þegar barn kemur í heiminn

0
224

Kvenfélagið Vaka hefur starfað frá árinu 1945, en það var stofnað það ár á sjálfan konudaginn 18.febrúar og erum við því að hefja 79. starfsár félagsins. Tilgangur félagsins frá upphafi er að sporna gegn einangrun kvenna og styrkja samfélagið. Þetta hefur í grunninn ekki breyst í áranna rás, þótt einstök verkefni og samsetning samfélagsins hafi breyst. Félagið er vettvangur fyrir konur á öllum aldri úr öllum starfstéttum og hornum samfélagsins til að koma saman, njóta samveru og samskipta og vinna saman að bættu samfélagi. En það er samnefnari kvenfélaga um allt land að vinna að fjáröflunum og safna fjármunum sem þau láta renna til þeirra í samfélaginu þar sem mest er þörfin.
Vaka hefur styrkt einstaklinga og fjölskyldur sem hafa fengið erfið og óvænt verkefni inn í líf sitt m.a. erfið og langvinn veikindi, slys sem valdið hafa varanlegri örorku eða ef ótímabært andlát hefur borið að garði. Einnig hefur félagið styrkt skólastarf með kaupum á leikföngum og kaup á heilbrigðisbúnaði og ýmis önnur samfélagsverkefni.
Nú í lok árs var tekin sú ákvörðun að setja af stað nýtt verkefni sem snýr sérstaklega að barnafjölskyldum í sveitarfélaginu. Allar konurnar í Vöku eru dætur, mæður, ömmur og frænkur og þekkja vel þá áskorun sem það er fyrir verðandi foreldra að þurfa að fara frá heimili sínu í aðdraganda fæðingar barns. Það hefur ekki verið boðið uppá fæðingarþjónustu í sveitarfélaginu okkar um árabil og þurfa því allir foreldrar að gera ráð fyrir því að þurfa að dvelja í skemmri eða lengri tíma frá heimili sínu til að vera í nágrenni fæðingarstaðs. Þetta er oft kostnaðarsamt en því miður ekki um annað að ræða. Því vill Kvenfélagið Vaka gera sitt til að létta undir með verðandi foreldrum og veita þeim fjárstyrk sem nemur einnar viku leigu í verkalýðsíbúð. Mæðravernd HSU á Höfn mun vera okkur innan handar og koma upplýsingum um verkefnið til verðandi foreldra.
Helstu fjáraflanir Kvenfélagsins Vöku eru umsjón og framreiðsla veitinga við ýmsa viðburði s.s. erfidrykkjur, fundi og samkomur. Árlega er líka þriggja kvölda spilavist í kringum jól og áramót. Einnig hefur árlega verið haldið jólaball milli jóla og nýárs en það hefur verið endurgjaldslaust. Allt starf kvenfélagskvenna er sjálfboðastarf og rennur því allur ágóði fjáraflana beint til verkefna í samfélaginu.
Við erum þakklátar fyrir öll þau verkefni sem fólkið hér í samfélaginu hefur treyst okkur fyrir og hjálpað okkur um leið að hjálpa öðrum. Við viljum líka þakka öllum félagskonum fyrir alla vinnuna sem þær hafa lagt á sig fyrir félagið og velunnara okkar víða um sveitir og langar okkur þá helst að nefna Grænahraunsbúið sem hefur séð okkur fyrir öllum eggjum í veitingarnar.
Við tökum alltaf nýjum kvenfélagskonum fagnandi í Kvenfélagið Vöku og hvetjum við allar þær konur sem eru forvitnar um starfið og langar til þess að vera með í þessum hressa félagsskap að endilega hafa samband á vakakvenfelagid@gmail.com eða mæta á auglýsta fundi hjá okkur. Einnig geta þau sem vilja nýta sér þjónustuna haft samband við okkur með sama hætti.
Við óskum öllum gleði og friðar um hátíðarnar um leið og við minnum á að jólaballið okkar í ár verður þann 27.desember kl 16.30 í Mánagarði og síðar sama dag, kl 20, verður fyrsta kvöld í spilavistinni. Öll hjartanlega velkomin.

Kæru Hornfirðingar nær og fjær – gleðilega hátíð og farsæld um alla framtíð

Stjórn Kvenfélagsins Vöku, Eydís Dóra, Tinna Rut og Lovísa Rósa