Þáttaskil í mælingum á Heinabergsjökli

0
849
Loftmynd af Heinabergsjökli. Myndataka styrkt af Loftslagssjóði

Nemendur FAS hafa fylgst með breytingum á Heinabergsjökli allt frá árinu 1990 og hefur ferðin að jöklinum verið liður í námi þeirra. Náttúrustofa Suðausturlands hefur einnig verið samstarfsaðili að jöklamælingunum frá því að hún var stofnuð 2013.

Nestispása er nauðsynleg í útiveru

Lengst af var fjarlægð að jöklinum mæld út frá tveimur ákveðnum mælilínum á landi. Þar sem lón er fyrir framan jökulinn hefur þurft að beita svokölluðum þríhyrningamælingum til að reikna út fjarlægð að jökulsporðinum. Þeir sem fara reglulega að jökinum hafa séð mjög miklar breytingar síðustu ár og lónið hefur stækkað verulega.
Árið 2017 urðu ákveðin þáttaskil í mælingunum því þá var ljóst að nyrðri mælipunkturinn gagnaðist ekki lengur. Þegar loftmyndir voru skoðaðar kom í ljós að það sem var talið ísjaðar voru í raun stórir ísjakar. Síðustu ár hefur því einungis verið mælt sunnan megin þar sem jökullinn hefur verið nokkuð stöðugur. En jafnvel þar sjást miklar breytingar frá ári til árs.
Í fyrrasumar fékk Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk. Þegar nýleg loftmynd af Heinabergsjökli er skoðuð sést að þar hafa orðið gríðarmiklar breytingar. Það má sjá best af urðarröndinni, sem liggur frá Snjófjalli, að fremsti hluti jökulsins hefur hliðrast til vinstri og liggur nú brotinn fram með Hafrafelli. Sá hluti er ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur í raun risavaxinn ísjaki og bíður örlaga sinna, sem er að bráðna. Það er erfitt að segja til um hvenær þessar breytingar hafi orðið en Snævarr telur að sjá megi fyrsta vísi að þeim þegar árið 2018.
Á myndinni sést líka að fremsti hluti jökulsins norðan megin í lóninu er margklofinn og mjög sprunginn og víða sést í vatn sem bendir til þess að lónið eigi eftir að stækka mikið á næstu árum.
Í ljósi þessara upplýsinga eru mælingar á jöklinum í þeirri mynd sem þær hafa verið gerðar í þrjá áratugi ekki lengur raunhæfar. Við ætlum þó áfram að fylgjast með stóra ísjakanum sem liggur við Hafrafell og höfum hug á að leita nýrra leiða til að mæla framvinduna á jöklinum. Og við ætlum líka að halda áfram að skoða umhverfið fyrir framan Heinabergslón því þar eru einstakar aðstæður til að skoða ummerki landmótunar af völdum jökla.

Fyrir hönd jöklamælingagengisins 2021,
Hjördís Skírnisdóttir