Það verður aldeilis líf og fjör á Höfn um Verslunarmannahelgina!

0
1547
Nokkrir keppendur frá USÚ tóku þátt í bogfimi og stóðu sig vel.

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að í ár verður Unglinga­landsmót UMFÍ haldið hér á Höfn um Verslunarmannahelgina, dagana 1.-4. ágúst. Unglingalandsmót er eitthvað sem margir hafa farið á en fyrir ykkur sem ekki þekkja til þeirra eru þau frábær fjölskylduhátíð með dagskrá og afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Það verður hægt að keppa í 21 grein á mótinu og hafa allir keppnisrétt sem eru á aldrinum 11-18 ára, en einnig er margt í boði fyrir 10 ára og yngri þannig að engum á að leiðast þessa helgi. Á heimasíðunni www.ulm.is er hægt að sjá alla dagsskrána og keppnisgreinar á mótinu. Bogfimi, kökuskreytingar, götuhjólreiðar, frisbígolf, skotfimi, stafsetning og strandhandbolti eru greinar sem margir eru ekki að æfa dagsdaglega en eru í boði fyrir alla að keppa í á mótinu. Síðan eru greinar eins og frjálsíþróttir, körfubolti, fótbolti, sund, motocross, strandblak og fimleikalíf sem eru einnig í boði og geta allir skráð sig í þær. Á hverju kvöldi eru kvöldvökur þar sem fram koma þekktir listamenn og á daginn eru leikjatorg þar sem margt er í boði eins og fótboltapönna, kubb, skallatennis, brennibolti og stultur ásamt mörgu öðru. Þetta er ekki tæmandi listi um það hvað verður í boði þannig að við hvetjum alla til að kíkja á dagsskrána á www.ulm.is.
Skráning hefst 1. júlí og þátttakendur frá USÚ þurfa ekki að greiða keppnisgjöld. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á Unglingalandsmótinu.