Það er alltaf gleði og gaman á Unglingalandsmóti

0
914
Boðhlaupsveitin Súrir pungar frá USÚ 12 ára stúlkur, þær kláruðu fótboltaleik og rétt náðu að koma sér fyrir í startblokkunum, ennþá í takkaskónum, enduðu í 2. sæti. 
Sjálfboðaliðar við undirbùning Unglingalandsmòts.

Frjálsíþróttadeildin ætlar hér aðeins að fara yfir árið í máli og myndum. Eins kunnugt er var haldið hér á Höfn stórglæsilegt Unglingalandsmót um Verslunarmannahelgina. Bærinn fylltist af ungmennum með fjölskyldum sínum og hægt var að keppa í fjölmörgum greinum eins og kökuskreytingum, strandblaki, körfubolta, hjól­reiðum svo fátt eitt sé nefnt og á kvöldin voru kvöldvökur. Þrátt fyrir að frjálsíþróttadeildin sé með þeim minni þá skipa frjálsíþróttirnar alltaf stóran sess á Unglingalandsmótunum og voru tæplega 400 keppendur og 1200 skráningar í mismunandi greinum í frjálsum íþróttunum. Það vill svo til að svona stór viðburður gerist ekki að sjálfu sér, það voru því mikil fagnaðarlæti í okkar herbúðum rétt fyrir mótsetningu þegar við sáum að búið var að manna í allar stöður. Greinarstjórarnir okkar og sjálfboðaliðarnir voru 78 talsins og það var nú eingöngu eljusemi og áhugi þeirra á að láta allt ganga upp að svona vel tókst til, auk þess sem mikið var lagt upp úr góðu skipulagi sem tókst vel. Það var haldið héraðsdómaranámskeið á okkar vegum og útskrifuðust 12 löggildir héraðsdómarar í Frjálsum íþróttum. Fyrir hönd USÚ kepptu töluvert margir í frjálsum íþróttum og stóðu allir sig með prýði og fóru þó nokkrir keppendur frá okkur á verðlaunapall. Við trúum því varla enn hversu hliðhollir okkur veðurguðirnir voru þessa helgi og það hefur gífurlega mikið að segja á svona viðburðum.
Hér áður fyrr voru frjálsíþróttamótin einn af aðalviðburðum unga fólksins. Það hefur breyst enda er fjölbreytnin orðin meiri og það er margt í boði fyrir unga fólkið okkar þegar kemur að því að velja íþróttir, sem er mjög gott. 

Teymið sem hljòp með kyndilinn og tendraði Unglingalandsmòtseldinn.

Ákveðið var að endurvekja Gamlárshlaup deildarinnar í fyrra en vegna veðurs varð það að þrettándahlaupi þar sem veðrið lék ekki við okkur á gamlársdag, í hlaupið mættu rúmlega 50 hlauparar og margir hverjir í skemmtilegum búningum, veitt voru verðlaun bæði fyrir fyrstu sætin í hlaupunum og búninga. Í ár ætlum við að gera aðra tilraun með gamlársdag og hlaupa árið frá okkur, við vonumst til að sjá ykkur þar sem flest og kveðja gamla árið með stæl og um að gera að mæta með jólahúfur, í búningum eða bara alveg eins og þið viljið. Þessi viðburður er til þess fallinn að eiga góða og heilsusamlega stund saman. Hlaupið verður klukkan 12:30 á gamlársdag og vonumst við til að sjá sem flesta, eftir hlaupið býður Kaffihornið upp á súpu fyrir hlaupara.
Verið er að ganga frá ráðningu nýs þjálfara og byrja æfingar í frjálsum íþróttum aftur í janúar, þá verður bæði um að ræða styrktaræfingar og svo greinar innan frjálsra íþrótta.
Enn og aftur þökkum við öllum þeim sem veittu okkur ómetanlega aðstoð á Unglingalandsmótinu í sumar, bæði við undirbúning og á mótinu sjálfu, þið eruð frábær.
Sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár.

Anna Björg, Berglind og Jónína.