Takk fyrir okkur!

0
107

Lungann úr síðustu viku voru fleiri nemendur í FAS en alla jafna. Ástæðan var sú að hér voru í heimsókn nemendur og kennarar í nýjasta samskiptaverkefni í FAS sem fjallar um náttúrulegar auðlindir. Þetta er tveggja ára verkefni sem hófst 1. ágúst og var fyrsta heimsóknin til Íslands. Þátttökulöndin eru Finnland, Noregur og Ísland og eru 10 nemendur frá hverju landi. Samskiptamálið í verkefninu er enska og verkefnið er líka með sérstaka vefsíðu sem hefur slóðina https://nr.fas.is/. Við köllum okkur NR hópinn hér í FAS.
Gestirnir komu til Íslands sunnudaginn 1. október. Finnski hópurinn kom að morgni en sá norski ekki fyrr en um miðnætti. Strax á mánudagsmorgni
var lagt af stað áleiðis til Hafnar og kom hópurinn þangað síðdegis og hitti þá íslensku félagana. Í svona samskiptaverkefnum gista erlendir nemendur heima hjá íslensku nemendunum og á þann hátt verður fjölskylda hvers nemanda þátttakandi í verkefninu.
Íslenski hópurinn var búinn að skipuleggja dagskrá sem innihélt bæði verkefnavinnu og eins heimsóknir og skoðunarferðir sem tengjast verkefninu. Eins er lögð áhersla á það að gestirnir fræðist sem mest um svæðið. Dagana sem hópurinn dvaldi hér var t.d. farið í skoðunar- og fræðsluferð í Skinney-Þinganes, Hulda Laxdal leiddi hópinn og fræddi um sögu Hafnar og farið var á Stokksnes til að skoða þá stórbrotnu náttúru sem þar er. Íslenski nemendahópurinn skipulagði afþreyingu síðdegis og á kvöldin. Síðasta kvöldið var svo „smakkmatarboð“ þar sem boðið var upp á alls kyns rétti, bæði þjóðlega og hefðbundna sem endurspegla nokkuð daglega matarvenjur okkar Íslendinga.
Auk ferðanna unnu nemendur að veggspjöldum sem tengjast náttúrulegum auðlindum og verða þau fljótlega birt á vefsíðu verkefnisins.
Í verkefnum sem þessum er afar mikilvægt að geta leitað út í samfélagið bæði til að fá að koma í heimsóknir og eins til að fá að nýta aðstöðu í sveitarfélaginu án endurgjalds. Síðast en ekki síst eru fjölskyldur þátttakenda mikilvægur hlekkur í að svona verkefni gangi.
Það er skemmst frá því að segja að síðasta vika gekk ljómandi vel. Ekki spillti fyrir að veðrið lék við okkur alla dagana. Við viljum hér með þakka öllum þeim sem aðstoðuðu hópinn á einn eða annan hátt kærlega fyrir þeirra hlut. Eftir páska verður ferðinni svo heitið til Noregs þar sem við munum endurgjalda heimsóknina og kynnumst nánar samstarfsskólanum þar.
NR- hópurinn í FAS