Takk fyrir jólatré

0
582

Íslenski geitastofninn telur um 1700 dýr og er því skilgreindur sem stofn í útrýmingarhættu. 61 af þessum geitum eru á Háhóli í Nesjum, en þar hafa verið haldnar geitur í um 10 ár.
Hér á Háhóli framleiðum við geitakjöt og ýmsar afleiddar geitaafurðir s.s. stökur, sápur og krem. Allar vörurnar okkar eru seldar beint frá býli og geta áhugasamir haft samband við okkur beint til að fá frekari upplýsingar.
Geiturnar eru, líkt og mörg önnur íslensk húsdýr, fóðraðar á heyi á veturna, en þeim er eðlislægt að éta grófara fóður og fá því ýmisskonar trefjaríkari fóðurbæti með. Á sumrin fara þær út í hagann og éta helst gras og blóm en fúlsa ekki við laufi, brumi og njóla þar sem þær finna slíkt.
Nú á þorranum eru þær alsælar með tilbreytinguna sem fallið hefur til um jólin, nefnilega jólatré. Háhólsgeitur eiga góða vildarvini að sem hafa fært þeim slíkt góðgæti. Ferskt barr og grannar greinar eru bruddar af áfergju en einnig nudda þær börkinn lausan af trjástofninum með hornunum og naga hann svo líka. Í trjánum eru snefilefni og tréni sem er geitum nauðsynlegt til að viðhalda heilbrigðri meltingu.
Þetta er afbragðs endurvinnsla og viljum við nota þetta tækifæri til að koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem hafa fært okkur tré og greinar, bæði til einstaklinga og sveitarfélagsins.

Kveðjur Lovísa og Jón