Sveitarfélagið Hornafjörður – tækifæri og möguleikar

0
1296

Hornafjörður hefur alltaf átt sérstakan stað í mínu hjarta. Ég hef búið hér alla mína ævi ásamt foreldrum mínum og tveimur systrum. Síðast liðið haust flutti ég til Reykjavíkur til að stunda nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, þá fyrst fann ég hversu gott er að búa á Höfn.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum og um tvítugt fór ég að taka þátt í stjórnmálum hér heima, verið formaður ungra hér í sveitarfélaginu síðan 2014, vann á kosningaskrifstofu flokksins hér í alþingiskosningum 2016 og ég var virkur í alþingiskosningum s.l. haust fyrir unga Sjálfstæðismenn á Reykjavíkursvæðinu.
Hér í sveitarfélaginu eru gífurlega miklir möguleikar. Sveitarfélagið er að stækka, náttúran er ein sú fallegasta á landinu, sem hefur sannast með ásókn ferðamanna í auknu mæli til okkar. Því má segja að Sveitarfélagið Hornafjörður er orðið þekkt ferðamannasvæði sem hefur skapað fjölda starfa tengt ferðamanninum. Ég styð eindregið bættar samgöngur innan sveitarfélagsins, einnig styð ég fjölbreyttari atvinnutækifæri og aukna afþreyingu fyrir ungt fólk.
Ég hef trú á að jákvæðni sé vænleg til árangurs og tel ég að það séu bjartir tímar framundan. Ég kýs að horfa fram á veginn og leggja áherslu á að við höldum áfram þessari góðu þróun sem orðin er og að sem flestir treysti Sjálfstæðisflokknum áfram til góðra verka fyrir sveitarfélagið okkar.

Jón Guðni Sigurðsson – 9.sæti Sjálfstæðisflokkurinn