Sveitarfélagið Hornafjörður – Heilsueflandi samfélag

0
801

Á íbúafundi í Nýheimum föstudaginn 25. nóv. fór bæjarstjóri yfir stöðu bæjarsjóðs og áherslur bæjarstjórnar um framkvæmdir næsta árs. Í þessari yfirferð kynnti hann m.a. metnaðarfulla áætlun bæjarstjórnar um fjölbreytta uppbyggingu á innviðum innan Hafnar. Áætlunin hvetur til útivistar íbúa ekki síst fjölskyldna og gaman væri að fá hana birta hér á þessum vettvangi.
Það vita allir hve mikilvægt er að ástunda reglulega og markvissra líkamsrækt fyrir alhliða heilsu fólks. Íþróttaiðkun á vegum íþróttafélaga fær árleg framlög til að reka starfsemi sína og sveitarfélagið hefur einnig stutt myndarlega við bakið á þeim með uppbyggingu íþróttamannvirkja, rekstri þeirra og viðbótarstyrkjum til ýmissa verkefna og framkvæmda. Íþróttaiðkun eins og annað tekur breytingum og nú er svo komið að kallað er eftir yfirgripsmikilli uppbyggingu íþróttamannvirkja til þess að koma til móts við breyttar þarfir.

Vinna starfshópa síðastliðin ár

Ég ætla í þessari grein að fjalla um framtíðaruppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja á svo kölluðu miðsvæði á Höfn. Síðustu tvö kjörtímabil var unnin þarfagreining þar sem þarfirnar voru listaðar upp. Í framhaldinu vann verkfræðistofan Alta skipulagsforsögn í samræmi við greininguna. Í fundargerð sem stýrihópur um skóla- og íþróttamál skilaði til fræðslu- og tómstundanefndar og bæjarstjórn samþykkti 2019 lagði hópurinn til eftirfarandi:

1. Að taka frá svæði 2 og hluta af svæði 3 ásamt skika af bílastæði austan við Heppuskóla. Þessum valkostum er lýst í skipulagsforsögn Alta í kafla 3 um skipulagsáherslur, valkosti á bls. 16. Lagt er til að á þessu svæði verði byggt upp fyrir hópíþróttir, fimleika og fleiri greinar í framtíðinni.

Síðan eru gerð grein fyrir möguleikum í stöðunni og greindir kostir og gallar við þá.

2. Að byggt verði við sundlaug í vestur fyrir almenna líkamsrækt. Inngangur verði sameiginlegur fyrir sundlaug og líkamsrækt og búningsaðstaða sundlaugar verði nýtt fyrir báðar einingarnar. Starfsmannaaðstaða fyrir starfsmenn þessarar einingar íþróttamiðstöðvar verði hönnuð í þeim hluta byggingarinnar sem hýsir inngang og anddyri sundlaugarinnar í dag.

Síðar … Í forgangsröðun um uppbyggingu varð niðurstaðan …

a) Að byggður verði stór fjölnota íþróttasalur með búningsaðstöðu, sturtum og salernum.
b) Viðbygging undir líkamsrækt vestan megin við Sundlaug.

Það sem gerðist hins vegar í framhaldinu og ekki hefur komið fram í umræðunni er:

a) að samþykkt var tillaga um að í framtíðinni yrði grunnskólinn færður í eitt hús með viðbyggingu við Heppuskóla. Í því samhengi var rætt um mögulega nýtingu núverandi íþróttahúss, að hugsa yrði fyrir framkvæmdum á heildstæðan hátt með skólabyggingar og íþróttamannvirkin inni í þeirri mynd.

b) að þegar farið var að kostnaðargreina þær framkvæmdir sem fara þarf í til að fullnægja fram komnum þörfum íþróttagreina og lýðheilsu myndi sveitarfélagið þurfa að nýta nánast allt sitt framkvæmdafé næstu ára ef ráðist yrði í að byggja stórt fjölnota íþróttahús á einu bretti.

Með þetta að leiðarljósi þótti skynsamlegt að skoða það að hluta framkvæmdina niður í viðráðanlegar einingar og dreifa henni á næstu ár og áratugi jafnvel. Í þessum pælingum þróaðist umræðan utan um spurninguna hvaða íþróttaframkvæmd myndi fanga fjölbreyttustu þarfirnar. Niðurstaðan þá varð; Almenn líkamsræktarstöð, þar stunda íbúar frá 15 ára til 80+, alhliða líkamsrækt, á eigin vegum, með einkaþjálfara og í hóptímum undir leiðsögn fagmanna. Í íþróttahúsum stunda fyrst og fremst íþróttahópar æfingar í sínum greinum. Í stuttu máli, þá var ákveðið að taka frá landsvæði fyrir byggingu íþróttahúss en einhenda sér í að byggja líkamsræktarstöð við sundlaugina. Það myndu sparast háar fjárhæðir með því að samnýta búningsklefa og blautsvæði sundlaugarinnar auk þess sem það myndi skapa fjölskylduvæna umgjörð fyrir hreyfingu foreldra og barna að tengja þetta saman.
Með þessari framkvæmd væri búið að svara þörfum um aðstöðu til eflingar lýðheilsu almennings til næstu 40 – 50 ára. Síðan færi fókusinn á byggingu fjölnota íþróttahúss í viðráðanlegum einingum samkvæmt forgangsröðun íþróttahreyfingarinnar og skólanna; leik- grunn- og framhaldsskóla.

Líkamsrækt á hrakhólum

Aðstaða til almennrar líkamsræktar í sveitarfélaginu hefur verið hornreka frá upphafi. Eina undantekningin er þegar ofurhuginn og frumkvöðullinn Guðrún Ingólfsdóttir keypti húsnæði undir rekstur líkamsræktar 1988. Sá rekstur varð þó ekki langvinnur vegna þess að íbúar sveitarfélagsins voru og eru allt of fáir til að standa undir slíkum rekstri.
En er líkamsræktin ekki í ágætis leiguhúsnæði? Almennri líkamsrækt í dag er skipt í tvo staði; 1) í Sporthöllina sem rekin er í aflagðri bensínsjoppu sem byggð var árið 1976. Það húsnæði er úr sér gengið, engin loftræsting og gólfin ísköld sem er t.d. andstyggilegt í jóga 2) CrossFit sem er vaxandi grein líkamsræktar, er stunduð í kaffistofu á annarri hæð í aflögðu fiskvinnsluhúsi í eigu Skinneyjar-Þinganess þar sem ekki er hægt að fara í sturtu. Það er aldrei neinn í Sporthöllinni er fullyrðing sem ég heyri stundum. Samkvæmt upplýsingum frá Kolbrúnu Björnsdóttur eru rúmlega 200 manns með árskort í Sporthöllinni, þar af er stór hópur eldri borgara, ásamt fleiri hópum og einstaklingum auk þess sem slökkviliðsmenn og lögreglumenn halda sér þar í formi. CrossFit státar af tæplega 60 iðkendum í reglubundnum æfingum og um 60 til viðbótar sem eru óreglulegir iðkendur.
Í þeirri tveggja hæða byggingu sem hönnuð var við sundlaugina var gert ráð fyrir tækjasal, lyftingasal, og aðstöðu fyrir CrossFit með möguleika á að opna út og æfa í sundlaugargarðinum á góðum dögum. Tveir til þrír salir voru teiknaðir á efri hæðinni fyrir hreyfiþjálfun lítilla og stórra hópa ásamt rými fyrir nuddara, hnykkjara, sjúkraþjálfara eða aðrar fagstéttir sem veita heilsueflandi þjónustu.

Lokaorð

Á ofangreindum íbúafundi var farið yfir megnið af þessari sögu. Viðbrögð forsvarsmanna bæjarstjórnar báru vott um skilning á því að verkefnið væri yfirgripsmikið og flókið. Bæjarstjórinn Sigurjón Andrésson taldi að það þyrfti að koma að hlutunum aftur og það myndi meirihlutinn gera, því forsendur breyttust og það þurfi að endurskoða og endurmeta hlutina. Eyrún Fríða Árnadóttir formaður bæjarráðs sagði bæjarstjórnina vinna í þágu allra bæjarbúa og að hún vildi ástunda samtal og samvinnu við íbúa og Gauti Árnason forseti bæjarstjórnar sagði að ekki væri búið að henda þeirri vinnu sem hefur verið lögð í líkamsræktarstöð. Ég vil þakka þeim fyrir þeirra viðbrögð og vona að almenningur fái tækifæri til þess að koma að fyrirhugaðri endurskoðun þessara mála.

Ragnhildur Jónsdóttir – áhugakona um mannsæmandi umgjörð almennrar líkamsræktar