Sveitarfélag tækifæranna

0
953

Á Hornafirði er nóg að gera fyrir þá sem hér búa, hér er slegist um vinnuaflið og Eystrahorn er fullt af atvinnuauglýsingum í hverri viku, svona hér um bil. Ný fyrirtæki spretta upp, aðallega í kringum ferðþjónustu enda hefur vöxturinn verið mestur þar undanfarin ár. Reyndar svo mikill að erfitt hefur verið að fylgja þessari öru þróun enda er hún fordæmalaus með öllu.
Þessu höfum við sem erum í skipulagsnefnd fengið að kynnast vel á þessu kjörtímabili. Við höfum fengið til okkar fjölda beiðna varðandi hinar ýmsu breytingar á skipulagi sem lúta að uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn. Sem dæmi um viðsnúninginn í þessum málum þá eru rúmlega fimmtíu ár síðan byggt var húsnæði undir hótel á Höfn. En í dag eru 3-4 aðilar að óska eftir að byggja þar hótel og einnig hafa 2-3 aðilar lýst yfir áhuga á hótelbyggingum í dreifbýlinu. Þá er ótalin fjölmörg önnur uppbygging á þessu sviði í öllu sveitarfélaginu, enda á milli.
Fyrir síðustu kosningar talaði ég um að húsnæðisskorturinn væri farinn að hamla uppbyggingu í sveitarfélaginu. Fólk sem vildi flytja hingað fékk ekki húsnæði og urðu því sumir frá að hverfa. Þetta gilti líka um dreifbýlið þar sem þörfin fyrir lóðir undir húsnæði var mikil. Íbúafjöldi hafði nánast staðið í stað í mörg ár og erfitt var að manna störf á flestum sviðum, m.a. vegna húsnæðisskorts.
Uppbygging
Til að bregðast við þessu var ákveðið að fella niður gatnagerðargjöld af tilbúnum íbúðarlóðum í sveitarfélaginu og freista þess að einhverjir sæju sér hag í því og færu að byggja. Þetta hefur gengið eftir og á þessu ári verða teknar í notkun u.þ.b. tuttugu íbúðir á Höfn og meira er í farvatninu. Þetta er mjög ánægjuleg þróun því á árinu 2017 fjölgaði íbúum í sveitarfélaginu um 119 manns samkvæmt Hagstofu Íslands og alls um 7% á kjörtímabilinu, en betur má ef duga skal.
Einnig var farið í að skipuleggja lóðir í dreifbýlinu og búið er að klára skipulag á lóðum í Holti á Mýrum og Hofi í Öræfum. Sveitarfélagið er að hefja byggingu á raðhúsi á Hofi til að bæta úr brýnustu þörfinni fyrir húsnæði þar. Það er svo von okkar að aðrir fylgi í kjölfarið og byggðin styrkist enn frekar. Til stóð að skipuleggja íbúðarlóðir við Hrollaugsstaði en það mál hefur dregist vegna óvissu um eignarhald á landi í kringum félagsheimilið.
Það er gaman að sjá hvað þessi uppsveifla í atvinnulífinu hefur mikil áhrif á mannlífið í sveitunum og sem dæmi um það þá fjölgaði íbúum í Öræfum um 56% frá 2014 til 2018, úr 97 í 151. Þar hefur líka tekist að opna leikskóladeild og nemendum hefur fjölgað í Grunnskólanum í Hofgarði
Það hefur gengið vel að styðja við þá miklu uppbyggingu sem hér hefur verið og verður eflaust áfram ef við höldum rétt á spöðunum. Tækifærin eru til staðar, það þarf bara að grípa þau.
Páll Róbert Matthíasson. 3 maður á lista Sjálfstæðismanna í Austur-Skaftafellssýslu.