SUSTAIN IT: Sjálfbær vöxtur og samkeppnishæfni í ferðaþjónustu

0
693

Þann 13. febrúar síðastliðinn funduðu samstarfsaðilar í Erasmus+ verkefninu SUSTAIN IT- Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks í Malaga á Spáni. Samstarfsaðilarnir eru átta og koma frá sex löndum, Belgíu, Kýpur, Íslandi, Írlandi og Spáni. Nýheimar Þekkingarsetur er þátttakandi í verkefninu og átti því einn fulltrúa á fundinum, en verkefnið er leitt af Þekkingarneti Þingeyinga og áttu þau því einnig tvo fulltrúa á fundinum. Gestgjafarnir voru spænsku samstarfsaðilarnir IWS – Internet Web Solutions.
Hópurinn telur að sjálfbær ferðaþjónusta þurfi að styrkjast og auka samkeppnishæfni sína. Aukin hæfni starfsfólks er lykilinn að þeirri þróun og leið til að auka atvinnumöguleika fólks í greininni. SUSTAIN IT verkefnið felur annars vegar í sér hefðbundna kennslu og hinsvegar fræðslu sem er aðgengileg á vefsíðu verkefnisins á fimm tungumálum, þar á meðal á íslensku.
Á fundinum var farið yfir stöðu verkefnisins, áætlanir, vefsíðuna og það efni sem er þar til fræðslu og þjálfunar. Kynningarstarf og kynningarfundir eru mikilvægir fyrir sýnileika verkefnisins en áætlað er að þeir verði haldnir í haust.
Þekkingarnetið og Nýheimar á Höfn munu á næstu mánuðum prufukeyra íslenska námsefnið með það að markmiði að fínstilla það sem þarf. Næsta haust ætti efnið því að vera tilbúið til almennrar kynningar og notkunar.
Upplýsingar um SUSTAIN IT má finna á heimasíðu verkefnisins: www.sustainit.eu