Á þessari önn höfum við, nemendur í sviðslistaáfanganum í Framhaldsskólanum í Austur- Skaftafellssýslu, verið að vinna við gerð tveggja stuttmynda, sem við ætlum að sýna í fyrirlestrasalnum í Nýheimum 7. maí.
Ferlið hefur verið langt og skemmtilegt. Við skrifuðum handritin, tókum upp hjóð og mynd, lékum og klipptum myndirnar sjálf. Önnur myndin var tekin upp að hluta til í Bergárdal og hin í Nýheimum. Við fengum hjálp frá kennurum áfangans, Stefán Surla og Skrými og fengum lánaða búninga hjá Leikfélagi Hornafjarðar.
Á föstudeginum 7. maí ætlum við að sýna stuttmyndirnar okkar ásamt sex öðrum stuttmyndum eftir nemendur skólans og fleirum. Allar myndirnar eru sýndar í röð fjórum sinnum yfir daginn, klukkan 14:00, 15:00, 16:00 og 17:00. Eins og áður kom fram eru sýningarnar í fyrirlestrarsalnum í Nýheimum og öllum er velkomið að mæta á þeim tíma sem þeim hentar best. Við minnum þó á grímuskyldu og fjarlægðartakmörk. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá sem flesta.