Stutta leiðin að hamingju er að flytja til Hafnar

0
552

Innan um fagurt landslagið í Höfn í Hornafirði, stendur Hótel Höfn þar sem margir ævintýragjarnir Nordjobbarar hafa unnið síðan 2008. Ég hef fengið tækifæri til að spjalla við Lauru frá Helsinki, sem hefur unnið á Höfn í næstum því heilt ár í gegnum Nordjobb verkefnið.
Starfið á hótelinu hefur verið frábær lífsreynsla fyrir Lauru, hún hefur náð vel saman við samstarfsfólk sitt og aðra bæjarbúa. Nordjobb verkefnið hefur rutt brautina til Hafnar fyrir hana. Verkefnið gerði lífsbreytinguna þægilegri en hún hefði getað ímyndað sér. Laura byrjaði að vinna hjá hótelinu í ræstingum en skipti nýlega yfir til veitingastaðarins Birkis þar sem hún er þjónn.
Lífið í Höfn hefur umlukið Lauru með hlýju og vináttu. Í þessum litla íslenska bæ hefur Laura fundið mikla hamingju og góða vini í samfélagi sem hefur boðið hana velkomna frá fyrsta degi. Það kom henni á óvart hve fáir Norðurlandabúar voru á Höfn þegar hún byrjaði í september 2022 en þá höfðu Nordjobbararnir sem voru í sumarvinnu á Höfn farið heim aftur. Það var þó var enginn skortur á góðu samstarfsfólki og það var alþjóðlegur hópur sem hún hefur kynnst innan og utan vinnustaðarins.
Hvert sem hún fór var vingjarnlegt andlit tilbúið til að taka á móti henni og hún segir að það sé auðvelt að kynnast fólki betur en gengur og gerist á stöðum þar sem „hæ“ og „hvað segirðu?“ er ekkert meira en formlegheit og kurteisi. Á Höfn hefur Laura fengið að kynnast samfélagi þar sem fólki þykir vænt hvert um annað og hefur sannan áhuga á að vita „hvernig gengur?“
Þó svo að Nordjobb hafi virkað sem bakgrunnsþjónusta mestan dvalartímann hefur verkefnið boðið upp á ómetanlegan stuðning þegar kom að upphafi ferðalagsins. Í júní fór svo af stað Menningar- og frístundardagskrá Nordjobb, sem haldin er hvert einasta sumar. Meðal annars var boðið upp á íslenskunámskeið í fjarnámi sem hjálpaði henni að lifa sig inn í íslenska menningu. Í júlí tók Laura þátt í ferðum sem Nordjobb skipulagði þar sem tækifæri gafst til að kynnast öðrum Nordjobburum á Íslandi og uppgötva landið.
Laura hefur ferðast upp á eigin spýtur norður til Akureyrar og suður til Reykjavíkur. Hún hefur gengið að eldfjallinu við Litla-Hrút og klifrað upp á Vatnajökul með Glacier Adventure. Spurð að því hvers vegna hún hafi ákveðið framlengja dvölina, svaraði hún að henni þyki vænt um samfélagið á Höfn. Bærinn er einmitt nógu stór til að bjóða upp á þá þjónustu og afþreyingu sem hún þarf og náttúrudýrðin hefur fangað hjarta hennar.
Meðal hennar bestu minninga er einn vetrardagurinn í kringum síðustu jól þegar hún fór með vinum sínum að skauta á botnfrosnu jökulslóni. Hún lýsir þessari reynslu af svo mikilli undrun, að ég verð að prófa það sjálfur.
Í haust ætlar Laura að leggja af stað í heimsreisu til að kanna það sem ekki finnst á Íslandi auk þess að heimsækja fjölskylduna sína í Finnlandi og njóta skóganna sem hún saknar. Heimili hennar mun áfram vera á Höfn þar sem hún ætlar að búa eftir ferðalögin.

Atli Geir Halldórsson