Stóra málið

0
1258

Umhverfið og sveitarfélagið

Ein af stóru áskorunum allra jarðarbúa er að bæta umgengni um jörðina okkar. Sem betur fer hefur orðið mikil vitundarvakning í umhverfismálum og hefur verið gaman að fylgjast með því hvað ungt fólk er meðvitað um ástandið og hvað það er reiðubúið að láta til sín taka.
Sveitarfélög og ríkið hafa mikilvægu hlutverki að gegna í umhverfismálum og verða að skapa sér skýra framtíðarsýn, vera leiðandi og hvetjandi um leið og þau verða að nýta sér meðbyrinn til hins ýtrasta.
Okkar sveitarfélag má og á ekki að vera eftirbátur í þessu verkefni. Undanfarin ár hafa menn verið að þreifa sig áfram í hvað hentar best í okkar víðfema sveitarfélagi, því ekki geta menn kastað til hendinni með ómældum kostnaði og kannski litlum árangri. Hlutirnir verða að gerast í sátt við íbúana og fyrirtækin. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur fengið ýmsar ábendingar um það sem betur má fara í umhverfismálum. Snúa þær að þjónustuþáttum sem varða heimili, fyrirtæki, hina mörgu gesti sem koma á svæðið en einnig að sveitarfélaginu sjálfu á þá leið að sveitarfélagið og stofnanir þess ríði á vaðið og sé góð fyrirmynd.

Umhverfið og við

Við íbúarnir erum sveitarfélagið og umgengni okkar skiptir miklu um ásýnd þess og rekstur þessa málaflokks, ef okkur finnst þau sorpílát sem okkur eru sköffuð ekki nógu góð eða okkur finnst þau vitlaust staðsett endilega biðjið þá um stærri ílát eða komið með ábendingar um betri staði. Hægt er að senda beiðnir og ábendingar á afgreidsla@hornafjordur.is þar sem unnið er úr þeim. Við íbúarnir ættum að vita hvar við getum losað okkur við rusl og drasl þegar Gáran er lokuð, en einhverstaðar verðum við að hafa ílát fyrir ferðamennina til að losa sig við sorp. Hvað okkur heimamenn varðar er flokkunarbragginn við hlið Gárunnar staðurinn. Því miður hefur verið talsvert kvartað yfir því að þar séu ílátin oft full en ég veit að starfsmenn Íslenska Gámafélagsins eru að reyna að hafa puttann á púlsinum. Þeir hafa m.a. bent á að flokkunarbragginn sé bara fyrir smærri hluti þar sem hann er ekki vaktaður og til dæmis geti eitt stórt pappaspjald valdið því að karið sem undir er fyllist án þess að vera í raun fullt. Fyrir ferðamennina þarf að finna aðra lausn og verið er að vinna í því og fljótlega verða sett út kör eða ílát sem henta þeim. Þá er ekki heppilegt ef heimamenn fylla þau jafn harðan og verðum við að ætlast til þess að heimafólk líti á Gáruna sem sína grenndarstöð, það er ekki ætlunin að setja upp aðrar grenndarstöðvar í þéttbýlinu.
Svo eru nokkur atriði sem valda pirringi en ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir okkur að bregðast við. Dæmi um það eru bílhræ eða bílar sem staðið hafa í mörg ár og allt er orðið fast í. Þeir eru orðnir gagnslausir eigandanum og eru búnir að gera nágrannan gráhærðan um aldur fram, þessi hræ ættu menn að láta sækja. Endileg hringið í Kalla Guðna í síma 896-6490, þetta kostar ekki svo mikið og verður öllum til sóma.
Eitt sem pirrar mig og örugglega marga fleiri þegar keyrt er um okkar fallegu sveitir er plast í girðingum. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið í nógu að snúast hjá bændum undanfarnar vikur, en nú fer aðeins að slakna, vetrar stormarnir að baki þá er tilvalið að nota tímann og týna helvítis plastið úr girðingum. Hvað varðar okkur þéttbýlis búanna þá er það óþolandi hvað fólk er gjarnt á að skila plastpokana eftir inní Ægisíðu þegar það er að losa sig við garðaúrgang.

Umhverfið og fyrirtækin

Fyrirtækin eru líka sveitarfélagið og ber þeim eins og okkur íbúunum að standa sína plikt og flokka eins og engin sé morgundagurinn. Það er þeirra hagur þar sem þau borga ekkert urðunargjald fyrir það sem þau flokka en 26 kr. fyrir hvert kg. sem lendir í holuna, gjaldskráin og leiðbeiningar eru á heimasíðu sveitarfélagsins. Funi og Íslenska Gámafélagið eru ávallt til taks og ef menn vantar fleiri eða stærri ílát endilega hafið sambandi við þá, einnig er hægt að senda fyrirspurnir á afgreidsla@hornafjordur.is . Að reka fyrirtæki er ábyrgðarhluti, eins og þeir vita sem í því standa, ímynd skiptir máli og ímynd þess í því samfélagi sem það starfar í skiptir máli. Góð ímynd laðar að góða starfskrafta, góð verkefni og góða gesti. Gott orðspor er gulls ígildi.

Umhverfið allt

Sveitarfélagið og sú flóra sem þar þrífst er samfélag sem smáir og stórir, ungir og gamlir bera ábyrgð á. Umhverfi okkar verður umhverfi afkomendanna og ekki viljum við skila því í verra ásigkomulagi til þeirra heldur en við tókum við því. Að losa sig við rusl og drasl verður ekki hjá komist en hvernig við gerum það og hvaða verðmæti verður úr því er undir okkur komið, því endurvinnanlegt efni er verðmæti sem ætti undir engum kringumstæðum að urða.
Þótt aldrei verði komist hjá því að urða eitthvað þá er verkefni morgundagsins að urða minna og nýta betur. Í því neyslusamfélagi sem við höfum lifað í undanfarna áratugi hefur það oft verið kallað aðhaldssemi og jafnvel níska að nýta út úr hlutunum. Ég spái því hinsvegar að á komandi misserum verði eftirsóknarvert að láta nota um sig orð sem fela í sér hagkvæmni, hugkvæmi, ráðdeild, sparsemi og útsjónasemi.
Því hvet ég alla sýslubúa til að huga vel að umhverfismálum í kringum sig og koma með ábendingar til sveitarfélagsins í því sem betur má fara hjá því. Því eins og ég sagði hér að framan þá skiptir máli að sveitarfélagið sé góð fyrirmynd en sýslubúar allir eru sveitarfélagið og saman gerum við hlutina góða.

Ásgrímur Ingólfsson
Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar