Stefanía Anna

0
1405

Að alast upp á Höfn í Hornafirði eru forréttindi og þegar ég sjálf eignaðist börn þá kom ekkert annað til greina en að ala þau upp í því umhverfi sem ég var alin upp í. Ég hef alltaf verið stolt af því að vera Hornfirðingur og mér er umhugað um sveitarfélagið mitt og nærumhverfi. Ég er dóttir hjónanna Sigurjóns Gunnarssonar og Laufeyjar Óladóttur elst þriggja systra. Ég er gift Þresti Jóhannssyni og á tvö börn, Sigurstein Má og Laufey Ósk. Þröstur minn á eina dóttur og tvö barnabörn þannig að hópurinn okkar er bara orðinn nokkuð myndarlegur og við hjónin ákaflega stolt af þeim öllum. Fjölskyldan er mér afar dýrmæt og nýt ég mín best í samveru við fólkið mitt. Síðustu tvö ár hef ég stundað nám í þroskaþjálfafræði í fjarnámi. Það tekur á að vera í námi samhliða vinnu og fjölskyldu en með góðu skipulagi og jákvæðni er allt hægt ! Málefni fatlaðra og annarra jaðarhópa hefur verið mér hugleikið í nokkuð langan tíma. Ég hef viljað láta gott af mér leiða í þeim málum og starfa núna hjá málefnum fatlaðra. Málaflokkurinn hefur vaxið mikið á skömmum tíma og núverandi húsnæði og aðstaða er orðið of lítið fyrir þá þjónustu sem lög gera ráð fyrir. Það verður því ákaflega skemmtilegt að fylgjast með því þegar starfsemin flyst yfir á Víkurbraut 24 og rýmið til fleiri verkefna verður meira. Núverandi hugmynd að starfsemi er meðal annars sú að setja á laggirnar geðræktar miðstöð og hefur mér fundist ákallið eftir slíkri starfsemi verið mikil og því gleðilegt að sjá hana verða að veruleika en til þess þarf málaflokkurinn aukið fjármagn.
Jákvæðni byggir árangur

Stefanía Anna Sigurjónsdóttir 5.sæti hjá Sjálfstæðisflokknum