Starfsemi Ferðamálafélags Austur-Skaftafellssýslu

0
756

Starfstímabil þessarar stjórnar FASK var stutt eða tæpir fimm mánuðir, frá 3. september 2020 til 25. janúar 2021, en engu að síður viðburðaríkt tímabil.
Núverandi stjórn var kosin á aðalfundi FASK 3. september 2020, í stjórn voru kosin Haukur Ingi Einarsson, Bergþóra Ágústsdóttir, Laufey Guðmundsdóttir, Ágúst Elvarsson, Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir og til vara var Anna María Kristjánsdóttir kosin, Anna María sagði sig úr stjórn 30. nóvember 2020.  
Alls fundaði stjórnin átta sinnum á starfstímabilinu og tók þátt í ýmsum verkefnum sem verða gerð skil hér að neðan.
Á fyrsta fundi stjórnar 7. september skipti stjórn með sér verkum,  Haukur Ingi Einarsson var skipaður formaður, Bergþóra Ágústsdóttir gjaldkeri, Ágúst Elvarsson var skipaður fulltrúi FASK í Stjórn Markaðsstofu Suðurlands, Laufey Guðmundsdóttir skipuð til fjögurra ára heldur áfram sem fulltrúi FASK í Svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði og Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir vara áheyrnarfulltrúi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs og stjórnarmaður í Ríki Vatnajökuls og Anna María varamaður.
Á fyrsta fundi var kynntur verkefnalisti þar sem m.a var lögð áhersla á að kynna félagið og stjórn þess fyrir helstu stjórnvöldum svo sem SVH, VJÞ, SAF og fleiri aðilum, kynna félagið fyrir félagsmönnum, afla nýrra félagsmanna og koma prókúrumálum félagsins í rétt horf.  Ákveðið var að halda a.m.k einn félagsfund á starfstímabilinu og koma á fót umræðuhópum með mismunandi áherslum innan ferðaþjónustunnar, þ.e afþreyingahópur, gistihópur, veitingahópur og gerð fundaáætlana.
Verkefnin voru fjölbreytt, bæði stór og smá og öll jafn mikilvæg.  
Heimasíðan www.ferdaskaft.is var tekin í notkun á tímabilinu, það var mikið framfaraskref fyrir FASK þar sem auðvelt er að koma fréttum og upplýsingum til félagsmanna, svo sem fundargerðum og öðrum fréttum.  Stjórn félagsins lét einnig hanna lógó fyrir félagið.
Eftir fyrsta fund stjórnar var ákveðið að boða til félagsfundar sem yrði opinn öllum og fjalla um Covid. Lögð var áhersla á hvernig FASK geti stuðlað að jákvæðum aðgerðum greinarinnar sjálfrar og stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila sem hafa með málefni greinarinnar að gera.  Markmiðið var að lágmarka þann skaða sem blasti við með aðgerðum þessara ólíku en tengdu aðila.   Ákveðið var að gera spurningakönnun meðal fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu og boða til vinnufundar í kjölfarið.  Til að kosta verkefnið leitaði Stjórn FASK til SVH og ákvað Sveitarfélagið Hornafjörður að styrkja verkefnið með því að kaupa vinnu af Þekkingarsetri Nýheima til að sinna verkefnastjórnun og umsjón með verkefninu.    Þátttaka í könnuninni var góð og var svarhlutfall yfir 50 %.  Niðurstöður vinnufundarins ásamt niðurstöðum úr könnuninni voru send út til mismunandi ráðuneyta og annarra hagsmunaaðila.  Auk þess var allt efni gert aðgengilegt á heimasíðu FASK, www.ferdaskaft.is.
Í október boðaði Stjórn FASK til félagsfundar vegna úthlutunar leyfa vegna Íshellaferða.  Fundurinn fór fram í Pakkhúsinu og var hann vel sóttur bæði af félagsmönnum FASK og einnig fulltrúum frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Eftir fundinn fékk stjórn FASK ósk frá VJÞ að skipa þrjá fulltrúa FASK í vinnuhóp með þjóðgarðinum sem hefði það markmið að móta umgjörð fyrir næstu úthlutun leyfa til íshellaskoðunar.  Fulltrúarnir áttu að koma frá mismunandi stórum fyrirtækjum, litlum – meðalstórum og stórum.  Stjórn FASK skipaði í hópinn samkvæmt því og horfði einnig til reynslu og fleiri þátta við val í hópinn.  Í hópinn skipuðust Einar Rúnar Sigurðsson, Haukur Ingi Einarsson og Atli Már Björnsson.  Þegar þetta er ritað hafa fimm fundir farið fram í vinnuhópnum og tveir upplýsingafundir með félagsmönnum.  Breyting á skipan í vinnuhópinn var gerð að beiðni VJÞ eftir þrjá fundi en þá kom Þröstur Þór Ágústsson inn í hópinn fyrir Atla Má.  

Stjórn FASK fjallaði um málefni Vakans og hvernig FASK geti hjálpað fyrirtækjum á starfssvæðinu við að lækka kostnað við úttektir og fleiri þætti m.a með því að afla sameiginlegra tilboða í úttektir og þannig lækka ferðakostnað úttektaraðila o.fl þætti.  Stjórn FASK er sammála um að stuðla eigi að aukinni fagmennsku, þekkingu og menntun í greininni.
Stjórn FASK ákvað að haldið yrðu námskeið á vegum FASK.  Námskeiðin yrðu einkum valin þannig að þau nýtist stjórnendum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  Samþykkt var að halda fyrsta námskeiðið af mörgum í Hagnýtri Mannauðsstjórnun, þar sem bæði félagsmönnum í FASK og öðrum aðilum er boðið að skrá sig á námskeiðið.  Gert er ráð fyrir að námskeiðið verði kennt í lok janúar 2021.  Næstu námskeið sem haldin yrðu gætu verið gerð rekstraráætlana fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og Stafræn Markaðssetning. 
Minni verkefni voru að sitja fundi sem tengdust ferðaþjónustunni og voru boðaðir af opinberum aðilum svo sem SVH, VJÞ og öðrum sambærilegum aðilum.  Stjórn FASK lét Deloitte vinna ársreikning fyrir árið 2019 og 2018.  
Laufey Guðmundsdóttir sat sjö fundi hjá Svæðisráði VJÞ og Ágúst Elvarsson sat fjóra fundi Markaðsstofu Suðurlands.
Stjórn FASK samþykkti á síðasta fundi sínum 8. janúar sl. að gera tillögu til aðalfundar um að hækka félagsgjöld einstaklinga þannig að félagsgjöldin endurspegli vægi atkvæðisréttar.  Í dag eru félagsgjöld einstaklinga 2.500.- kr. og fyrirtækja 12.500.- kr., aðild einstaklinga fylgir 1 atkvæði en 2 atkvæði fylgja fyrirtækjaaðild.  Stjórnin leggur til að félagsaðild fyrirtækja verði sú sama 12.500.- kr. og að félagsaðild einstaklinga verði 6.250.- kr. fyrir félagsaðild næsta starfsár 2021/2022.  
Samskipti við Sveitarfélagið Hornafjörð og aðra aðila svo sem Vatnajökulsþjóðgarð og Ríki Vatnajökuls, voru jákvæð á árinu og stjórn FASK  vill þakka þeim sem og öðrum fyrir gott samstarf á árinu 2020.
Sérstaklega ber að þakka SVH fyrir úthlutun gjafabréfa til starfsmanna SVH og með stuðning vegna vinnu Nýheima við utanumhald um spurningakönnun og vinnufund.  
Að lokum má nefna nokkur erindi sem FASK sendi inn til SVH,m.a að það standi að hugmyndasamkeppni meðal íbúa og lögaðila um hentugan stað eða hugmynd að listaverki/gjörningi fyrir ferðamenn til að taka ógleymanlega mynd af sér á Höfn.  Hugmyndin á sér samlíkingu víðar um land og má nefna kirkjuna á Seyðisfirði og hjartað á Akureyri. Einnig var komið á samtarfi milli SVH, FASK og RV um sameiginlega þróun vörumerkis sem miðar að því að auðkenna fyrirtæki sem byggja upp samfélagið Austur – Skaftafellssýslu.  Samstarfið gengur nú út á að vinna með heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna og tengja það við samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og er stjórn FASK vongóð um að árangur náist í þróun vörumerkis á árinu 2021.  
Sótt var um tvo styrki á árinu hjá SVH, annað til að halda námskeið og hitt til að þróa áfram vörumerki í kringum Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir heimafyrirtæki.  
Nánari upplýsingar um sérstök mál má finna á heimasíðu FASK www.ferdaskaft.is undir fundargerðir.