Starfið er köllun

0
597

Næstkomandi sunnudag verður nýráðinn prestur í Bjarnanesprestakalli, séra Karen Hjartardóttir, formlega sett í starfið við guðsþjónustu í Hafnarkirkju. Því þótti tilhlýðanlegt að kynnast henni lítillega með viðtali í Eystrahorni sem hér birtist.

Snæfellingur og á danskan mann
Ég fæddist á Akranesi árið 1992 elst fjögurra systkina. Foreldrar mínir heita Hjörtur Sigurðsson og Eygló Kristjánsdóttir sem bæði eru fædd og uppalin á Snæfellsnesi. Faðir minn er ættaður frá Staðarbakka í Helgafellssveit og móðir mín ólst fyrstu árin upp á Rifi og síðar í Stykkishólmi, hún segist sjálf vera Hólmari. Pabbi er sjómaður og þau hafa rekið, síðustu tíu ár, hestatengda ferðaþjónustu heima í sveitinni á Stóra-Kambi á sunnanverðu Snæfellsnesi. Ég ólst upp á Snæfellsnesinu, í Stykkishólmi, Arnarstapa og svo á áðurnefndum Stóra-Kambi.

Ég fór í framhaldsskóla í Grundarfirði og eftir stúdentspróf lá leið mín til Reykjavíkur, þar sem ég stundaði nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Fljótlega eftir að ég lauk embættisprófi flutti ég til Danmerkur með fjölskyldu minni. Þar bjuggum við á Sjálandi í litlum bæ sem er heimabær mannsins míns, sem að er danskur. Ég starfaði örlítið við sjálfboðaliðastörf úti, tók önn í uppeldisfræði, aðallega til að bæta mig í dönskunni og naut þeirra forréttinda að geta sinnt barninu mínu heima heils hugar. Fyrir þann tíma þegar við bjuggum á Íslandi hafði ég haft mörgu að sinna að vera í fullu námi, starfsnámi og sinna ungu barni, mestmegnis ein þar sem maðurinn minn flutti ekki til Íslands fyrr en árið 2016. En við eigum saman einn son sem verður 9 ára í apríl.

Guðfræðin heillaði
Sem barni þótti mér gaman að læra um Guð, bæði í sunnudagaskólanum og í grunnskólanum. Kristinfræði var ábyggilega eina fagið sem fékk 10 fyrir í grunnskóla. Sem barn elskaði ég líka að fara í sumarbúðir KFUM OG KFUK, fór þangað bæði með frænkum, vinkonum og eitt sumar fór ég meira að segja ein. Aldrei hefði mér samt dottið í hug að ég yrði prestur. Sem barn langaði mig að verða barnageðlæknir og leikari en síðar á mínum framhaldsskóla árum ákvað ég að fara í kennaranám eftir að ég lyki framhaldsskólanámi, enda alltaf haft ánægju að vinna með börnum. Um sumarið stuttu áður en ég átti að hefja kennaranám fékk ég köllunina mína frá Guði. Hún var kröftug og ég fór fljótt eftir hana að lesa mér til um nám við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Þar sem það var stutt í að kennaranámið ætti að hefjast taldi ég ekki vera miklar líkur á því að ég gæti hafið guðfræðinám strax um haustið. En sem betur fer athugaði ég hvort það væri hægt að breyta um námsleið svona skömmu áður en skólinn átti að byrja. Hóf ég því guðfræðinám haustið 2012, og sá aldrei eftir því . Ég lauk svo embættisprófi í guðfræði í febrúar 2018.

Eftir nokkurra ára dvöl í Danmörku var ég farin að sakna þess að búa ekki heima á Íslandi og langaði að koma heim og starfa sem prestur og nýta þar með mína guðfræðimenntun. Ég sá prestsstarfið fyrir Bjarnanesprestakall auglýst og fannst starfið kalla á mig.

Gott samtal er gulls ígildi
Væntingar mínar til starfsins eru að vera í góðu sambandi við sóknarbörnin og heyra hvað þau vilja að sé í boði í kirkjunum. Gott samtal er gulls ígildi og undirstaða þess að hægt sé að koma til móts við þarfir fólks. Ég hef mikinn áhuga á barna- og æskulýðsstarfi og hef starfað við það innan þjóðkirkjunnar sem og í sumarbúðum KFUM og KFUK, svo ég sé mögulega á frekari þjónustu tengda því.

Hef aldrei látið lömunina hefta mig
Ég fæddist með varanlegan taugaskaða í hægri handlegg vegna axlarklemmu sem varð við fæðingu (Brachial Plexus skaða), og hef þar af leiðandi aldrei getað notað hægri hendina að neinu ráði. Sem barn fór ég í nokkrar skurðaðgerðir til þess að reyna gefa mér aukinn mátt en þær aðgerðir skiluðu því miður litlum árangri. En ég þekki ekkert annað og hef aldrei látið lömunina stoppa mig í einu eða neinu. Sömuleiðis hef ég alltaf verið ófeimin að biðja um hjálp þegar að ég þarf hennar með og finna mínar eigin leiðir til að leysa hlutina. Til dæmis blessa ég bara söfnuðinn með annarri hendi. Einnig fæ ég sóknarbörn til að dýfa oblátunni í kaleikinn við útdeilingu sakramentisins, þar sem að ég get ekki bæði haldið á honum og notað þerruna. En eftir COVID-19 er orðið nokkuð algengt að fólk dýfi frekar oblátunni í vínið heldur en drekki úr kaleiknum svo það þykir því ekki lengur óvenjulegt.

Er þakklát og full tilhlökkunar
Það hefur verið afskaplega vel tekið á móti mér og ég er mjög þakklát fyrir hlýhug og hjálpsemina sem mér hefur verið sýnd alls staðar síðan ég kom hingað og ekki skemmir fallega landslagið fyrir.
Við fyrstu kynni líst mér vel á allt hér og gæti hugsað mér að setjast hér að til lengri tíma. Því miður eru húsnæðismálin vandamál og í óvissu hjá fjölskyldunni. Sem stendur er ég í lítilli leiguíbúð sem ég hef aðeins út maímánuð og eftir það er ég orðin húsnæðislaus. Okkur fjölskylduna vantar því leiguhúsnæði og treysti ég og vonast til þess að þau mál leysist fljótt og vel en leyfi mér að nota þetta tækifæri og auglýsa hér með eftir húsnæði fyrir okkur þrjú.
Svo vonast ég eftir að eiga með ykkur, fólkinu í héraðinu, margar góðar og gefandi stundir í starfinu og í kirkjunni okkar .

Albert Eymundsson