Skipulagsmál

0
504

Aðalskipulag

Í byrjun hvers kjörtímabils þarf að ákveða hvort fara eigi í heildar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins eður ei. Það er mat okkar á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra að fara þurfi í þessa endurskoðun á komandi kjörtímabili enda orðin u.þ.b. átta ár síðan núverandi aðalskipulag tók gildi. Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann varðandi endurskoðun er stytting hringvegarins í gegnum sveitarfélagið. Á aðalskipulagi er veglínan á hringvegi í gegnum Öræfin ekki eins og heimamenn vilja helst hafa hana og styttingin skv. henni heldur ekki hámörkuð. Íbúar í Öræfum eru flestir sammála um hvernig veglínan eigi að liggja og þarf því að breyta henni við endurkoðun á aðalskipulagi. Þannig fæst meiri stytting hringvegarins á þessu svæði öllum íbúum sveitarfélagins til heilla. Samhliða þessu þarf að fara yfir og skerpa á vegstyttingum annars staðar í sveitarfélaginu, t.d. í Lóni. Í framhaldinu verður síðan verkefni kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins að þrýsta á ríkisvaldið að setja fjármagn í framkvæmdir í tengslum við þessar vegstyttingar.
Í endurskoðun á aðalskipulagi þarf einnig að skoða hvar íbúabyggð er best fyrir komið til framtíðar. Það eru ennþá nokkar lóðir lausar til úthlutunar á einkalandi við Hofgarð í Öræfum. Til eru lóðir á landi sveitarfélagsins við Holt á Mýrum og síðan er deiliskipulag á landi sveitarfélagsins, við Hrollaugsstaði í Suðursveit, í kynningu en á því er gert ráð fyrir íbúðalóðum. Lóðir umfram þessar í dreifbýlinu þyrfti að skipuleggja í samráði og samvinnu með landeigendum á viðkomandi stöðum sé vilji fyrir því. Við hjá Framsókn og stuðningsmönnum viljum síðan deiliskipuleggja frekari íbúabyggð í Nesjahverfi. Hér á Höfn er vinna við deiliskipulag á Leirusvæði langt komin og vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir á innviðum og úthluta lóðum þar á næstu mánuðum. Það er því gert ráð fyrir fjölbreyttum íbúðum á fjölbreyttum svæðum fái þessar áætlanir framgang.

Tjaldsvæðið

Varðandi áframhaldandi íbúabyggð hér á Höfn viljum við á lista Framsóknar og stuðningsmanna horfa til framtíðar í þeim efnum. Við viljum hefja undirbúning á flutningi tjaldsvæðisins. Það gerum við ekki nema að tjaldsvæðinu verði fundin jafn góður eða betri kostur en fyrir er með tilheyrandi stækkunarmöguleikum. Stækkunarmöguleikana teljum við vera minni á núverandi stað þegar byrjað verður að byggja norðan við tjaldsvæðið, nema þá að hafa íbúabyggðina þeim mun norðar og gefa þannig tjaldsvæðinu meira pláss en það er eitthvað sem við viljum síður.
Með því að hafa íbúabyggð þar sem nú er tjaldsvæðið verður meiri samfella á byggðinni, íbúar sem búa hér að staðaldri fá að njóta góðs af staðsetningunni og verða þannig í betra göngufæri við skóla, íþróttamannvirki og miðsvæði bæjarins.
Um er að ræða gott byggingarland og líklegt er að innviðir í tengslum við íbúabyggð á heildarsvæðinu yrðu hagkvæmari með því að hefja uppbygginguna á þessu svæði, nær núverandi innviðum.
Við höfum ekki hugsað okkur að raska Hrossabitahaganum og hann gæti við þetta styrkst sem gott útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins jafnt sem aðra íbúa bæjarins.
Það er okkur ekki sérstakt kappsmál að losna við tjaldsvæðið af þessu svæði né kappsmál að finna því annan stað. Staðreyndin er hins vegar sú að tjaldsvæðið fékk ekki sérstaklega góða umsögn hjá erlendum ferðamönnum í niðurstöðum könnunar varðandi ferðavenjur þeirra sem gerð var árið 2019. Sú gagnrýni snérist aðallega að aðbúnaði á tjaldsvæðinu og því komin tími á betrumbætur á því, óháð flutningi þess. Okkur finnst því rétti tímapunkturinn að hefja undirbúning á flutningi þess núna á meðan ekki er byrjað að byggja tjaldsvæðið upp eins og til var ætlast af rekstraraðilanum þegar samið var um rekstur þess árið 2017. Það yrði þannig sárara að þurfa færa tjaldsvæðið eftir 20-40 ár, t.d. vegna skorts á stækkunarmöguleikum og þurfa þannig að kaupa af rekstraraðilanum tiltölulegar nýleg mannvirki tjaldsvæðisins á matsverði. Kaupa þær til þess eins að rífa þær með tilheyrandi viðbótarkostnaði áður en hægt væri að nýta svæðið til annarra hluta.
Það er okkur því frekar kappsmál að horft sé til framtíðar varðandi íbúabyggð og skipulagsmál innan bæjarmarka Hafnar og að íbúar sem vilja setjast hér að njóti þeirra gæða sem svæðið hefur upp á að bjóða.
Kæru sveitungar, við óskum eftir ykkar stuðningi á kjördag.
Setjum X við B.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, byggingatæknifræðingur, 2. sæti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra.