Björn Eymundsson

Ég er fæddur 22. janúar 1942 í Dilksnesi þar sem ég ólst upp og í Hjarðarnesi. Við systkinin fórum í barnaskólann á Höfn og gengum að heiman og heim aftur. Sem unglingur vann ég við sveitarstörfin og vinnu sem féll til á Höfn m.a. í frystihúsinu. Á þessu árum voru farnar margar veiðiferðir út í fjörð.

Sjómannsferillinn

Við Hildur Gústafsdóttir konan mín eigum fimm syni og sjö barnabörn og þrjú barnabarnabörn. Ég fór fyrst 13 ára gamall á handfæri með þeim Jóhanni og Ragnari Albertssonum, frændum mínum frá Lækjarnesi, á lóðsbátnum Stíganda. Fyrsta lögskráning mín var á Gissurri hvíta 1958 og var þar í fimm vertíðir. Eftir það fór ég í Stýrimannaskólann og útskrifaðist með fiskimannapróf 1969. Svo var ég stýrimaður á Húna 2., Ólafi Tryggvasyni og Þorbirni 2. Þá tók við skipstjórn á mótorbátnum Jökli sem síðar varð Þinganes SF hluta af humar- og haustvertíð. Ég var stýrimaður á Hópsnesi GK í tvö ár og skipstjóri á Reykjarröst sömuleiðis í tvö ár. Árið 1976 keyptum við Lúlli (Björn L. Jónsson) og Villi í Garði (Vilhjálmur Antoníusarson) Æskuna SF 140 sem var um 100 tonna trébátur smíðaður í Danmörku 1963.

Ég var skipstjóri á Æskunni ásamt Lúlla til 1991 þegar útgerðin var seld. Ég hélt svo áfram útgerð eftir að Æskan var seld og árið 1992 keypti ég ásamt fóstursyni mínum Ómari Franssyni stálbátinn Síðu-Hall SF sem var skírður Sævar SF 72 og rérum við feðgar saman á honum til ársins 1997 en þá var báturinn seldur. Ég var þó ekki hættur í útgerð það ár því árið 1998 keypti ég Sóma 800 og skírði Stíganda SF 72 og reri á þeim bát til ársins 2015. Þá hætti ég til sjós, 57 árum eftir að ég var fyrst lögskráður á bát.

Eftirminnilegur fyrsti dagurinn til sjós

Á fyrsta dagi sem ég var til sjós gerðist atvik sem tók mikið á mig og gleymist seint. Valdi sem var ættaður úr Lækjarhúsum í Suðursveit kom hér á vertíð og tók hann út með síðasta netinu sem verið var að leggja. Fór hann töluvert niður en með snarræði tókst að ná honum um borð og var hann þá með meðvitund og var hann frá vinnu um vikutíma eftir þetta óhapp.

Þakklátur og sáttur

Ég vil þakka þeim mörgu góðu mönnum sem ég hef unnið með til sjós, lengst af með þeim Lúlla og Villa við útgerð á Æskunni, eins höfum við Ómar fóstursonur minn unnið mörg handtök saman til sjós og lands og á ég einnig góðar minningar frá þeim fimm árum sem ég réri frá Grindavík. Sömuleiðis er ég þakklátur fyrir að hafa átt farsælan feril sem skipstjóri og stýrimaður og ekki lent í neinum alvarlegum óhöppum eða slysum.

Unnsteinn Guðmundsson

Ég byrjaði sjómennsku með föður mínum við Breiðafjörðinn. Jörðinni Dröngum, þar sem ég ólst upp, fylgdu nokkrar eyjar og fékk ég oft að koma með ungur að árum í svartbakseggjatínslu, sinna æðarvarpinu í eyjunum, selveiði og fleira. Eftirminnilegur var heyskapurinn í eyjunum og heyflutningar á bátunum til lands.

Ég kynntist konunni minni Hildigerði Skaftadóttur þegar ég var á Hvanneyri í bændaskólanum og hún í húsmæðraskólanum á Varmalandi. Við erum lánsöm með þrjú börn, níu barnabörn og eitt barnabarnabarn á leiðinni.

Sjómannsferillinn

Nýfluttur til Hornafjarðar 1966, gerðist ég kokkur á m/b Dagnýju SF með Villa Antoníusar, Halla Jóns, Gunnari Ásgeirs, Þránni Sigurðar og fleirum. Veitt var með humar- og fiskitrolli. Skemmtilegur tími. Síldveiðar með reknetum, á Akurey SF 52, hjá Hauki Run og áhöfn, áður en hristararnir voru fundnir upp. Þá voru netin handhrist, upp í sex klukkutíma í einni lotu. Eftirminnilegt. Handsnellur á Stöðvarfirði með Birni Kristjáns, á trillunni hans Birni Óskari SU 47, nokkrir róðrar og svo nokkrir frábærir túrar með Kidda Jóns á m/b Krumma SF, með handsnellunum. „Oft kátt á veiðunum þeim“, segir Unnsteinn.

1985 á Haukafelli SF 111, fyrst háseti og svo kokkur. Með Guðmundi Eiríkssyni og Axel Jóns. 1986 kokkur á Garðey SF 22 með Ödda, Gústa og Gauja. Skemmtilegt, eins og lög gera ráð fyrir! Með Bjössa Eymunds á Æskunni SF skemmtilegum og óhefðbundnum, síldveiðum, „snapi“ 5. – 15. des. Algjör blíða og bullandi afli og það án veiðarfæra!

Dásamlegur tími

„Og svo“, segir Unnsteinn, „dásamleg 30 ár hjá okkur Ugga mínum SF 47. Við Uggi búnir að fiska yfir eittþúsundogþrjúhundruð tonn á þessum árum. Elvar minn og ég höfum átt mikla samleið í okkar starfi þessi 30 ár sem sannarlega hefur gefið því gildi. Sama má segja um trillukarlana, þann góða hóp félagana í Hrollaugi og félagana í stjórn Landssambands Smábátaeigenda“. Fyrir þetta vill ég þakka sérstaklega.

Ein lítil saga í lokin frá fyrsta veiðitúrnum okkar Ugga, við Ingólfshöfða. Höfðinn er nú líklega skemmtilegasti veiðistaðurinn, þar er ein regla gildandi. Þar eru engar reglur, ekki hægt að ganga að neinu vísu, ekki fiskeríi eða fallaskiptum, veðri eða sjólagi. Það var komið að heimferðartíma, klukkan orðin fjögur og ég aðeins komin um 50 kíló og kalla ég í Jón Sveins í talstöðinni og spyr hann hvort hann sé ekki búinn að finna einhvern fisk. Þá segir Jón ja, jú, ég fékk eitt tonn hérna áðan. Ég fæ staðsetninguna hjá Jóni, sigli til hans í jökullituðum sjó, þegar ég kem nær Jóni sigli ég inn í djúpblánn sjó og sé á dýptarmælinum fallegustu fiskilóð sem ég hef séð. Eftir rúman hálftíma var komið um borð eitt tonn af fallega Ingólfshöfðaþorskinum.

Skafti, tengdapabbi minn, sýndi alltaf mikinn áhuga á mínum veiðiskap, sagði þegar ég var búinn að veiða 200 kílóa lúðuna mína og draga að landi, oregonpine drumbinn stóra, sem vigtaði 1,6 tonn, að nú ætti ég bara eftir að veiða hafmeyna!
Ógleymanlegir tímar. Það eru forréttindi að fá að vera trillukarl. Ég þakka Sjómannadagsráði 2017, heiður mér sýndan.